Verðskulduð þrjú stig heim úr Eyjum

Á heimleið með Herjólfi. Dominique Randle, Sandra María Jessen og Jakobína Hjörvarsdóttir. Myndir: H…
Á heimleið með Herjólfi. Dominique Randle, Sandra María Jessen og Jakobína Hjörvarsdóttir. Myndir: HarIngo

Þór/KA er komið í sex stig í Bestu deildinni eftir sigur á ÍBV í Eyjum í dag. Eitt mark dugði og Sandra María Jessen skoraði í þriðja leiknum í röð.

Sandra María Jessen skoraði eina mark leiksins eftir um 20 mínútna leik þegar hún fékk sendingu frá Huldu Ósk Jónsdóttur vinstra megin inn á teiginn og skoraði af öryggi í fjærhornið. Sandra hafði áður fengið svipað færi, en þá varði Guðný í marki ÍBV.

Þegar stutt var eftir af fyrri hálfleiknum var brotið á Söndru Maríu á miðjum vellinum, leikmaður ÍBV fékk rautt spjald og útlit fyrir að Sandra þyrfti að fara af velli. Hún fékk stórt sár á efri vörina og fékk aðhlynningu, náði að spila síðustu mínúturnar í fyrri hálfleiknum og fékk mjög svipað færi og þegar hún skoraði, en skaut framhjá í þetta skipti.

Þór/KA spilaði undan vindi í fyrri hálfleik og hefði hæglega getað skorað fleiri mörk, en þegar upp var staðið dugði þetta eina mark Söndru Maríu. Bæði lið fengu góð færi í seinni hálfleiknum. Hulda Ósk átti meðal annars skot í þverslána og okkar megin á vellinum bjargaði Melissa í markinu.

Í Herjólfi á leið í land settist fréttaritari niður með Pétri Heiðari Kristjánssyni aðstoðarþjálfara og spurði hann um viðbrögð eftir þennan sigur í Eyjum. „Bara frábær viðbrögð. Þetta var leikur eins hálfleikja þar sem við vorum ofan á í báðum og sigurinn hefði mátt vera töluvert stærri, en við tökum 1-0 sigur á erfiðum útivelli. Þetta var fínasti leikur við erfiðar aðstæður. Við spiluðum vel úr því sem við höfðum, með sterka vörn, duglega miðju og hættulega sóknarmenn,“ segir Pétur Heiðar.

Hann segir þjálfurunum og leikmönnum hafa tekist að laga það sem fór úrskeiðis í síðasta leik, eða það sýni tölurnar að minnsta kosti eftir 1-0 sigur.

Leikskýrslan á vef KSÍ.
Mótið á vef KSÍ.

Sterkt að ná í þrjú stig í Eyjum

Sandra María hefur nú skorað í öllum leikjum liðsins það sem af er móti, er komin með þrjú mörk eftir þrjár umferðir. Hún var ánægð með sigurinn þegar við heyrðum í henni á leið í land.

„Það er alltaf rosalega gott að koma til Eyja og ná í þrjú stig. Þetta er erfiður útivöllur og það er meira en að segja það að fara til Eyja og ná í þrjú stig. Ég er mjög sátt við að hafa tekið öll stigin með heim núna,“ segir Sandra María. „Við kláruðum mikinn baráttuleik og það var vel gert, við spiluðum þéttan og góðan varnarleik og vorum að skyndisækja mjög vel, hefðum getað skorað fleiri mörk, en boltinn fór inn einu sinni og það er það sem skipti máli. Þrjú stig komin og gaman að vinna.“

Kom ekki til greina að fara af velli

Sandra María fékk vænt högg í andlitið undir lok fyrri hálfleiks eins og áður var getið, fékk skarð í efri vörina og var saumuð eftir leik. „Ég er með fimm spor í vörinni og fínt næstu daga að vera á fljótandi fæði, en það skiptir engu máli. Það sem skiptir öllu máli er þessi sigur. Hvort maður er með eitthvað í andlitinu eða ekki eftir leikinn, það er aukaatriði,“ segir Sandra María.

Henni fannst þó engin ástæða til að láta gott heita og fara af velli þegar hún fékk þetta högg í andlitið. „Nei, það kom ekki til greina. Um leið og ég sá að þeir (Jói og Peddi) voru að undirbúa einhverja aðra þá kallaði ég strax að ég væri ekki að fara út af, þannig að það kom aldrei til greina að fara út af. Ég vildi alltaf spila áfram,“ segir Sandra María með bólgna efri vör og fimm spor.

Góð þjónusta í Eyjum

Hér er líka ástæða til að þakka og hrósa Elíasi J. Friðrikssyni sjúkraþjálfara í Eyjum sem við fengum á bekkinn hjá okkur í leiknum.

Leikurinn hófst kl. 14, lauk rétt fyrir kl. 16 og hópurinn átti bókað far í land með Herjólfi, brottför kl. 17. Elías límdi fyrir sárið í leiknum og lagaði í leikhléinu, en síðan reddaði hann skoðun hjá lækni í hvelli eftir leikinn, útvegaði far upp á sjúkrahús og þar var læknir tilbúinn sem saumaði vörina og Sandra hafði meira að segja tíma til að fara í sturtu og fá sér pítsu í boði Eyjaliðsins… en þó ekki því skipunin var að hún þyrfti að vera á fljótandi fæði í næstu fjóra daga.

Með samstilltu átaki voru stelpurnar tilbúnar á mettíma, náðu að þiggja veitingar í félagshúsinu og komast í Herjólf í tæka tíð. Eyjafólk er alltaf höfðingjar heim að sækja, en hróp sem fáeinir stuðningsmenn létu frá sér fara þegar Sandra María þurfti að fara af velli til að fá aðhlynningu með skurð á vörinni hljóta þó að vekja einhverja til umhugsunar svo ekki sé dýpra í árinni tekið.

Brotið sem leiddi til rauða spjaldsins í lok fyrri hálfleiks má sjá í íþróttafréttum í Sjónvarpinu í kvöld og getur þá hver dæmt fyrir sig.


Sárið myndað. Dominique, Jakobína og Sandra María.