Karfan er tóm.
Vegna tilfærslna á leikjum í Bestu deild kvenna í kringum lokamót EM U19 (en ekki HM) á enn eftir að spila 13. umferð mótsins, en 14. og 15. umferð er nú þegar lokið. Þrettánda umferðin hefst í dag þegar Þór/KA mætir Breiðabliki á Kópavogsvelli kl. 16.
Upphaflega var öll umferðin færð á daginn í dag, frídag verslunarmanna, en nú hafa allir leikir nema þessi verðir færðir lengra fram í vikuna, vegna bikarúrslitaleiks sem mótherjar okkar í dag munu spila á föstudagskvöldið.
Sigur í fyrri umferðinni
Þór/KA vann fyrri leik liðanna í sumar, 2-0, í Boganum um miðjan maí. Breiðablik vann báða leiki þessara liða í deildinni í fyrrasumar og hefur í innbyrðis viðureignum í efstu deild oftar haft betur.
Fyrir leikinn er Breiðablik í 2. sæti deildarinnar með 30 stig, en Þór/KA í 4. sæti með 22 stig.
Leiktíminn er ef til vill ekki hentugur fyrir margt af okkar fólki, en vonandi getur fólk bætt viðkomu á Kópavogsvelli inn í ferðadagskrá dagsins. Stelpurnar kunna vel að meta það þegar fólk mætir á leikina, heima og að heiman, og sýnir þeim stuðning. Það skiptir máli.