Úr leik í bikarkeppninni

Hendur á loft. Leikmenn Þórs/KA vilja vítaspyrnu, dómarinn því miður ekki á sama máli.
Hendur á loft. Leikmenn Þórs/KA vilja vítaspyrnu, dómarinn því miður ekki á sama máli.

 

Þór/KA féll út úr Mjólkurbikarnum í gær þegar liðið beið 1-4 ósigur gegn Selfyssingum á Selfossi.

Þrátt fyrir lokatölurnar má segja að leikurinn hafi verið nokkuð jafn í um 70-80 mínútur, bæði lið að skapa sér ákjósanlegar stöður og færi. Bæði lið vildu fá dæmda vítaspyrnu, Selfyssingar í fyrri og Þór/KA í seinni, en fengu ekki. Í fyrri hálfleik féll sóknarmaður Selfoss inni í teig og uppskar gult spjald frá dómaranum í stað vítaspyrnu. Atvikið mátti sjá í uppgjörsþættinum á RÚV 2 eftir átta liða úrslitin í gær - umfjöllun um okkar leik er fremst í þættinum. Atvik í seinni hálfleik þegar leikmaður Selfoss fær boltann í handlegginn er hins vegar ekki að finna í umfjölluninni af einhverjum ástæðum. 

Þór/KA náði forystunni á lokamínútum fyrri hálfleiks þegar Hulda Ósk fékk boltann á hægri kantinum og sendi hann áfram inn fyrir á Margréti, hún átti fyrirgjöf og fékk svo boltann aftur frá varnarmanni og skoraði af öryggi. Þór/KA var ívið sterkara liðið í fyrri hálfleiknum, en Selfyssingar komu ákafari til leiks í þeim seinni og jöfnuðu eftir fimm mínútna leik. Leikurinn var þó áfram nokkuð jafn og mikil barátta, alveg þar til á síðasta stundarfjórðungnum, en þá bættu Selfyssingar þremur mörkum við og tryggðu sig áfram í undanúrslitin með 4-1 sigri.

Leikur strax á þriðjudag

Þar með er þátttöku okkar í bikarkeppninni lokið þetta árið, en næsta verkefni er bara rétt handan við hornið því þriðjudaginn 14. júní fáum við KR í heimsókn norður í 9. umferð Bestu deildarinnar. Ótrúlegt en satt, keppni í deildinni verður hálfnuð þann 14. júní og þá hafa þau lið sem fóru áfram í átta liða úrslit bikarkeppninnar spilað 11 leiki á um sjö vikum. Lokaleikur Þórs/KA fyrir EM-hléið verður síðan laugardaginn 18. júní gegn Breiðabliki á heimavelli, en þá fer fram fyrsta umferðin í seinni hluta Bestu deildarinnar.