Karfan er tóm.
Þór/KA og Stjarnan skildu jöfn, 3-3, í 10. umferð Bestu deildarinnar í dag. Þór/KA er sem stendur í 3. sæti deildarinnar, aðeins fjórum stigum frá toppliðunum.
Sex mörk voru skoruð, öll í sama markið. Stjarnan náði þriggja marka forystu í fyrri hálfleiknum en okkar stelpur skoruðu þrjú mörk í þeim seinni. Í viðtali við Stöð 2 fyrir leik spáði Kristján Guðmundsson því að ævintýri gæti gerst í leik dagsins á blautum Þórsvellinum. Hann reyndist sannspár, en ævintýrið var þó ekki eins og hann hefði helst viljað.
Eftir mjög slaka byrjun hjá Þór/KA og yfirburði Stjörnunnar í fyrri hálfleik náðu okkar stelpur að snúa leiknum við og kreista fram jafntefli á lokamínútunni. Fyrstu tvö mörkin komu eftir hornspyrnur, Snædís María Jörundsdóttir skoraði strax á 3. mínútu og Heiða Ragney Viðarsdóttir á 12. mínútu. Alls ekki gott útlit í byrjun og gestirnir með öll völd á vellinum. Gestirnir áttu margar hættulegar sóknir og færi í fyrri hálfleiknum, en Melissa Lowder varði nokkrum sinnum frábærlega. Yfirburðir gestanna lágu ekki aðeins í því að skora mörk og skapa sér færi heldur gekk okkar stelpum illa fram á við.
Nánast eina færið sem hægt er að nefna úr fyrri hálfleiknum var hornspyrna frá Jakobínu sem Tahnai skallaði rétt framhjá. Sóknirnar náðu yfirleitt ekki lengra en inn á miðjan vallarhelming gestanna. Þær unnu sig þó aðeins betur inn í leikinn þegar leið á hálfleikinn, en þá kom hálfgert rothögg, þriðja markið frá Stjörnunni á 37. mínútu. En samt ekki rothögg þegar upp var staðið.
Þær breyttu leiknum. Hér er Eydís Ragna Einarsdóttir aðstoðardómari að skrá niður innáskiptingu þegar Karlotta Björk Andradóttir og Iðunn Rán Gunnarsdóttir kom inn á og spiluðu síðasta hálftímann. Karlotta átti stoðsendingu öðru markinu og Iðunn Rán átti stangarskot sem endaði með marki eftir að boltinn fór af stönginni í bak markvarðar Stjörnunnar og þaðan í markið. Mynd: Egill Bjarni Friðjónsson.
Sterkur karakter í liðinu
Allt annar bragur var á okkar liði í seinni hálfleiknum og það skilaði sér sannarlega þegar upp var staðið. Leikurinn er 90 mínútur og þegar á móti blæs er ekkert annað í stöðunni en að halda áfram, gefast aldrei upp. Einmitt það skilaði á endanum einu stigi gegn sterku liði Stjörnunnar.
Þegar aðeins um fjórar mínútur voru liðnar af seinni hálfleiknum fór Hulda Ósk framhjá varnarmönnum hægra megin í teignum. Brotið var á henni og dæmd vítaspyrna. Hulda Björg skoraði vonarneisti kviknaði. Annað markið kom þegar um stundarfjórðungur var eftir af leiknum. Karen María Sigurgeirsdóttir skoraði þá eftir sendingu frá Karlottu Björk Andradóttur. Það var svo á lokamínútu venjulegs leiktíma sem jöfnunarmarkið kom. Eftir hornspyrnu, hreinsun og fyrirgjöf skallaði Dominique Randle boltann út í teiginn þar sem Iðunn Rán Gunnarsdóttir tók hann á lofti, skaut í stöngina og þaðan fór boltinn í bak markvarðar Stjörnunnar og í markið.
Hvorugu liði tókst að nýta fimm mínútna viðbótartíma til að skora meira, en ekki vantaði mikið upp á. Áhorfendur hreinlega héldu niðri í sér andanum þegar gestirnir komust í sókn og fengu hornspyrnu á lokasekúndunum, en Melissa greip boltann og í sama mund flautaði dómarinn til leiksloka.
Þór/KA er í 3. sæti deildarinnar með 16 stig, en annaðhvort FH eða Þróttur gætu tekið það sæti þegar 10. umferðinni lýkur. Stutt er á toppinn því þar sitja Breiðablik og Valur með 20 stig. Næst er komið að útileik þegar stelpurnar halda til Keflavíkur þriðjudaginn 4. júlí.
Stoðsending. Karlotta Björk Andradóttir fór óhrædd í boltann þó Anna María Baldursdóttir, fyrirliði Stjörnunnar kæmi fljúgandi á móti henni. Karlotta Björk kom boltanum til vinstri á Karen Maríu og hún skoraði. Mynd: Egill Bjarni Friðjónsson.
Eftir hvern leik verðlaunum við einn leikmann úr hvoru liði með gjafabréfi frá Sprettinum. Sprettir leiksins í þetta skipti voru Agnes Birta Stefánsdóttir og Andrea Mist Pálsdóttir.