Karfan er tóm.
Stjórn Þórs/KA hefur lokið við að mynda öflugt þjálfarateymi í kringum starfsemi félagsins, en Þór/KA rekur meistaraflokk, 2. flokk og 3. flokk undir sínum merkjum. Ráðning þjálfara og samsetning teymisins gengur meðal annars út á aukið samstarf og tengsl milli meistaraflokks og yngri flokkanna.
Flestir þeirra þjálfara sem nú hafa undirritað samninga við félagið höfðu þegar hafið störf þegar æfingar hófust í október og nóvember, en nú má segja að teymið í kringum alla flokka félagsins sé fullmyndað og tilbúið í slaginn.
Áður hafði Jóhann Kristinn Gunnarsson skrifað undir samning sem aðalþjálfari meistaraflokks, en undanfarið hefur verið unnið að því að raða í störf í þjálfarateyminu og mynda öflugt teymi til að halda utan um hinn stóra og öfluga hóp sem félagið býr að í meistaraflokki og 2. og 3. flokki. Sú breyting verður meðal annars með undirskriftum núna að þjálfarar yngri flokkanna verða einnig hluti af þjálfarateymi meistaraflokks og samvinna og tengsl á milli flokkanna aukin frá því sem áður hefur verið.
Í dag bættust formlega í þjálfarateymið, með undirskriftum, þau Aron Birkir Stefánsson, Ágústa Kristinsdóttir, Birkir Hermann Björgvinsson, Egill Ármann Kristinsson, Hulda Björg Hannesdóttir, Pétur Heiðar Kristjánsson, Sigurbjörn Bjarnason og Siguróli Kristjánsson.
Þjálfarateymið verður þannig skipað:
Jóhann Kristinn Gunnarsson, aðalþjálfari meistaraflokks
Pétur Heiðar Kristjánsson, aðstoðarþjálfari meistaraflokks, aðalþjálfari 2. flokks og afreksþjálfari yngri flokka
Ágústa Kristinsdóttir, yfirþjálfari yngri flokka og annar aðalþjálfara 3. flokks
Birkir Hermann Björgvinsson, aðstoðarþjálfari 2. flokks
Hulda Björg Hannesdóttir, annar aðalþjálfara 3. flokks
Aron Birkir Stefánsson, markvarðaþjálfari allra flokka
Siguróli Kristjánsson, yfirmaður knattspyrnumála og hugarfarsþjálfari
Egill Ármann Kristinsson, styrktarþjálfari
Sigurbjörn Bjarnason, styrktarþjálfari
Þjálfarateymið, raðað eftir flokkum:
Meistaraflokkur: Jóhann Kristinn og Pétur Heiðar
2. flokkur: Pétur Heiðar, Birkir Hermann
3. flokkur: Ágústa, Hulda Björg
Markverðir: Aron Birkir
Styrktarþjálfun: Egill Ármann og Sigurbjörn
Siguróli Kristjánsson – eða Moli eins og flestir þekkja hann – mun gegna fjölbreyttu og víðtæku hlutverki með öllu þjálfarateyminu. Hann mun meðal annars vinna með leikmönnum varðandi hugarfarsþjálfun og verða þjálfarateyminu til ráðgjafar á breiðum grundvelli.
Um alla þessa þjálfara og ferilskrá þeirra mætti skrifa langar fréttir og margar því flestir þessara einstaklinga hafa langa reynslu á sínu sviði. Mörg þeirra hafa starfað hjá Þór/KA áður og þekking þjálfarateymisins á leikmannahópum flokkanna því mikil og mun koma sér vel í því starfi sem fram undan er. Stjórn Þórs/KA bindur miklar vonir við þennan öfluga hóp og býður nýtt og eldra starfsfólk velkomið til starfa.