Undanúrslit í Lengjubikar í Boganum á mánudag

Þór/KA tekur á móti Stjörnunni í undanúrslitum A-deildar Lengjubikarsins í Boganum mánudaginn 24. mars kl. 18. 

Undanúrslitaleikurinn hefur átt sér nokkurn aðdraganda þar sem notkun á ólöglegum leikmanni og skipulag æfingaferða spila inn í. Þór/KA vann riðil 1 eins og áður hefur komið fram hér á síðunni, hlaut 12 stig í fimm leikjum, eins og Valur en var með betri markamun. Sigurliðið í riðli 1 á að mæta liðinu í 2. sæti í riðli 2 í undanúrslitum.

Fyrst leit út fyrir að það yrði Víkingur eftir 5-0 sigur þeirra á Keflvíkingum í lokaleik riðils 2, en þá kom í ljós að Víkingur hafði notað leikmann sem ekki hafði leikheimild og dæmdist sá leikur því tapaður og Víkingur missti þrjú stig. Þar með var FH komið upp í 2. sætið og átti að verða andstæðingur Þórs/KA í undanúrslitaleiknum. Kom þá í ljós að FH getur ekki spilað undanúrslitaleikinn á tilsettum tíma vegna æfingaferðar liðsins.

Þór/KA skipulagði hins vegar sína æfingaferð með tilliti til verkefna A-landsliðs, U19 landsliðs og þeirra dagsetninga sem KSÍ gaf út fyrir undanúrslit og úrslit Lengjubikarsins og var því erlendis 12.-19. mars. 

Niðurstaðan varð því að liðið í 3. sæti riðils 2, Stjarnan, kemur norður og mætir Þór/KA í undanúrslitaleiknum sem fram fer í Boganum mánudaginn 24. mars kl. 18:00. 

Eins og ávallt skiptir miklu máli, og sérstaklega í svona leikjum, að við fáum fólkið okkar í Bogann, fyllum þægilegu bekkina í Boganum og sendum aukaorku inn á völlinn til stelpnanna okkar og hjálpum þeim að klára þetta verkefni. Þannig virkar liðsheildin - leikmenn, þjálfarar, stuðningsmenn og við öll saman, hærra saman.

Oft í undanúrslitum - tvisvar unnið A-deild

Þór/KA hefur leikið í A-deild Lengjubikarsins frá 2009, en hafði tvö ár þar á undan unnið B-deildina. Tvisvar hefur félagið fagnað sigri í A-deild, 2009 og 2018, í bæði skiptin eftir sigur á Stjörnunni, 3-2 árið 2009, og í vítakeppni 2018 eftir að leiknum lauk með 2-2 jafntefli. Á árunum 2009-2025 hefur Þór/KA 13 sinnum komist í undanúrslit eða úrslitaleik, tvisvar ekki komist áfram úr riðlinum og tvisvar var mótið ekki klárað vegna heimsfaraldurs.

A-deild

  • 2025: ?
  • 2024: Undanúrslit
  • 2023: Úrslit
  • 2022: 3. sæti í riðli
  • 2021: Mótið ekki klárað
  • 2020: Mótið ekki klárað
  • 2019: Undanúrslit
  • 2018: Meistarar
  • 2017: Undanúrslit
  • 2016: Undanúrslit
  • 2015: Undanúrslit
  • 2014: Undanúrslit
  • 2013: Undanúrslit
  • 2012: 6. sæti í deild
  • 2011: Undanúrslit
  • 2010: Undanúrslit
  • 2009: Meistarar 

B-deild

  • 2008: Meistarar í B-deild
  • 2007: Meistarar í B-deild