Karfan er tóm.
Nú er komið hlé á leikjum liðanna okkar í 3. flokki fram yfir verslunarmannahelgi og því góður tími til að taka stöðuna og fara yfir þátttöku liðanna í mótum ársins.
Þór/KA teflir fram þremur liðum í 3. flokki. Þar af eru tvö sem taka þátt í keppni A-liða og eitt í keppni B-liða. Lið 1 hóf keppni í A-riðli og er þar enn. Lið 2 hóf keppni í C-riðli, vann hann og færðist upp í B-riðil í lotu 2. Enn er einum leik ólokið í B-riðlinum og því ekki ljóst í hvaða sæti okkar lið endar þar. Lið 3 er í keppni B-liða, þar er ekki skipt í lotur eins og hjá A-liðunum, heldur spilað í þremur riðlum og svo úrslitakeppni.
Hér verður farið yfir árangur og stöðu hjá hverju liði fyrir sig, fjölda leikmanna og hverjar hafa skorað mörkin. Þetta er eingöngu til gamans og fróðleiks og að sjálfsögðu er það þannig að þegar birtir eru listar yfir þær sem skora mörkin þá gerir það ekki lítið úr öðrum sem skora ekki mörk. Þegar upp er staðið skipta allar 11 sem eru inni á vellinum hverju sinni, og þær sem eru utan vallar, máli fyrir framgang leikja, skorun marka og úrslit leikja. Knattspyrnukonur sem koma í veg fyrir mörk andstæðinganna eru jafn mikilvægar og þær sem skora mörkin. Liðið vinnur og liðið tapar, ekki einstaklingarnir.
Á síðunni Liðin okkar í valmyndinni hér á síðunni eru listar og tenglar á öll mótin sem lið frá Þór/KA taka þátt í á þessu ári, 3. flokkur, 2. flokkur og meistaraflokkur. Þar má einnig finna nokkrar liðsmyndir sem teknar hafa verið fyrir leiki í sumar.
Alls hafa 50 knattspyrnukonur komið við sögu í leikjum liðanna okkar í 3. flokki það sem af er ári, þar af níu sem koma úr 4. flokki félaganna, fæddar 2010.
Lið 1 spilar í A-riðli og endaði í 2. sæti, hvort tveggja í lotu 1 og lotu 2. Liðið spilar einnig í bikarkeppni 3. flokks, hefur unnið einn leik þar og mætir FH/ÍH í átta liða úrslitum í ágúst, en endanleg dagsetning liggur ekki fyrir.
Liðið spilað 14 leiki, unnið tíu, gert eitt jafntefli og tapað þremur. Samanlögð markatala liðsins það sem af er ári er 56-24. Alls hafa 26 leikmenn komið við sögu með þessu liði það sem af er. Tíu hafa séð um að skora mörkin og er Eva S. Dolina-Sokolowska þar langefst á lista, en hún hefur samtals skorað 22 mörk af þeim 56 mörkum sem liðið hefur skorað. Eva skoraði sjö mörk í lotu 1 og 15 mörk í lotu 2. Ísey Ragnarsdóttir kemur næst með tíu mörk, eitt í bikar, eitt í lotu 1 og átta mörk í lotu 2.
Nú er nýlokið keppni í lotu 2 og hér má sjá lokastöðuna:
4
Þór/KA2 vann C-riðilinn í lotu 1 með glæsibrag, vann sex leiki af sjö og færðist því upp í B-riðil þar sem stelpurnar fengu mun erfiðari andsæðinga. Fimm af átta liðum sem þær mættu í B-riðlinum eru A-lið viðkomandi félaga.
Þegar þetta er ritað er ekki ljóst hvort liðið spilar í B- eða C-riðli í lotu 3 þar sem einum leik er ólokið í riðlinum. Þór/KA er í 6. sæti riðilsins, en liðin fyrir neðan, í 7. og 8. sæti eiga eftir að mætast og er sá leikur ekki á dagskrá fyrr en 31. júlí. Úrslitin í þeim leik ráða því hvort Þór/KA2 verður áfram í B-riðli eða færist niður í C-riðil því ef liðið í 7. sæti (Haukar/KÁ) vinnur lokaleik sinn endar okkar lið í 7. sæti og færist niður í C-riðil. Undarleg staða þar sem keppni í þessum riðli ætti að vera lokið þannig að KSÍ geti raðað upp leikjum í lotu 3 og gefið félögum kost á að koma með athugasemdir og breytingar.
Alls hefur liðið spilað 14 leiki á árinu, unnið átta og tapað sex. Samanlögð markatala úr lotu 1 og 2 er 53-33. Í leikjum liðsins á árinu hefur 31 knattspyrnukona komið við sögu og hafa 19 þeirra skorað mark eða mörk fyrir liðið. Sóley Eva Guðjónsdóttir hefur skorað mest fyrir Þór/KA2, samtals 11 mörk, níu í lotu 1 og tvö í lotu 2. Marsibil Stefánsdóttir kemur næst með níu mörk og Arney Elva Valgeirsdóttir með sjö.
Íslandsmót B-liða er ekki spilað í lotum eins og hjá A-liðunum, heldur er liðunum skipt í þrjá riðla. Tvö efstu lið A-riðils og sigurlið B- og C-riðils fara í undanúrslit mótsins. Þór/KA tefldi fram tveimur B-liðum í fyrra og mættust þau lið í úrslitaleiknum um Íslandsmeistaratitilinn.
Þór/KA er í A-riðlinum ásamt fimm öðrum liðum og spiluð tvöföld umferð. Liðið mun því alls spila tíu leiki, en mögulega fleiri ef það nær að komast í úrslitakeppnina. Staðan er ágæt, en liðið hefur spilað fjóra leiki og unnið þá alla, samtals með markatöluna 22-3. Sem stendur er Þór/KA í 2. sæti með 12 stig, en FH/ÍH er á toppnum með 15 stig úr sex leikjum, hefur leikið tveimur leikjum fleiri en Þór/KA.
Í þeim fjórum leikjum sem búnir eru hafa 23 knattspyrnukonur komið við sögu og þar af hafa tíu skorað mark eða mörk. Diljá Blöndal Sigurðardóttir er þar efst á lista með sex mörk.