Tvær frá Þór/KA í æfingahópi A-landsliðsins

Sandra María Jessen og Margrét Árnadóttir.
Sandra María Jessen og Margrét Árnadóttir.

 

Margrét Árnadóttir og Sandra María Jessen eru á leiðinni á æfingar hjá A-landsliðinu í næstu viku.

Þorsteinn H. Halldórsson, landsliðsþjálfari A-landsliðs kvenna, hefur valið 29 manna æfingahóp sem kemur saman til æfinga í Miðgarði í Garðabæ í lok næstu viku, dagana 9.-11. nóvember. Hópurinn samanstendur eingöngu af leikmönnum sem leika með félagsliðum hér á landi.

Tvær úr okkar röðum eru í þessum hópi, þær Margrét Árnadóttir og Sandra María Jessen. Margrét á að baki sjö leiki með yngri landsliðum Íslands og var í æfingahópi U23 landsliðsins í fyrra, en hefur ekki komið við sögu með A-landsliðinu. Sandra María á hins vegar að baki 31 leik með A-landsliðinu og 25 leiki með yngri landsliðum Íslands.

Þá má einnig geta tvær til viðbótar sem léku með Þór/KA í sumar eru í þessum hópi, þær Andrea Mist Pálsdóttir, sem fór frá Þór/KA í Stjörnuna á dögunum, og Arna Eiríksdóttir, leikmaður Vals sem var á lánssamningi hjá Þór/KA í sumar. Á listanum eru svo fleiri nöfn sem Akureyringar kannast við, fyrrum leikmenn með Þór/KA, þær Anna Rakel Pétursdóttir, Lillý Rut Hlynsdóttir, Lára Kristín Pedersen og Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir úr Val og Katrín Ásbjörnsdóttir úr Stjörnunni.

Hér má sjá hópinn í frétt á vef KSÍ.

Tvær á leið til Litháen með U19

Eins og áður hefur komið fram hér á síðunni eigum við einnig tvo fulltrúa með U19 landsliðinu sem er að hefja keppni í undanriðli fyrir EM 2023. Þær Ísfold Marý Sigtryggsdóttir og Jakobína Hjörvarsdóttir voru valdar í lokahópinn hjá U19. Þær verða syðra um helgina og halda síðan utan með liðinu til Litháen á sunnudag. Fyrsti leikur liðsins verður kl. 9:00 að morgni þriðjudags að íslenskum tíma, gegn Liechtenstein.