Þrjú stig og markamet Söndru Maríu

Sandra María Jessen hefur skorað 75 mörk í 119 leikjum fyrir Þór/KA í efstu deild.
Sandra María Jessen hefur skorað 75 mörk í 119 leikjum fyrir Þór/KA í efstu deild.

 

Þór/KA vann sinn annan sigur í röð í Bestu deildinni þegar liðið mætti Aftureldingu í Mosfellsbæ í dag. Sandra María Jessen setti félagsmet. Arna Eiríksdóttir skoraði sitt fyrsta mark fyrir Þór/KA.

Byrjunin var söguleg og snaggaraleg því strax eftir 19 sekúndna leik kom Sandra María Jessen boltanum í netið eftir fyrirgjöf frá Tiffany McCarty.

Þór/KA byrjaði á miðju og svona gekk boltinn: Tiffany > Andrea Mist > Iðunn Rán > Andrea Mist > Saga Líf > Sandra María > Tiffany > (Vigdís Edda) > Sandra María > mark = 19 sekúndur, 14 snertingar.

Söguleg byrjun því með markinu setti Sandra María félagsmet hjá Þór/KA. Þetta var 75. mark hennar í efstu deild fyrir félagið og er hún þar með komin fram úr Rakel Hönnudóttur, sem skoraði 74 mörk með Þór/KA í efstu deild fram til ársins 2011. Þessi 75 mörk hefur Sandra María skorað í 119 leikjum í A-deild.

Róaðist eftir góða byrjun

Því miður tókst ekki að fylgja þessari leifturbyrjun nógu vel eftir. Liðið skapaði að vísu ágætis færi í fyrri hálfleiknum, sem ekki nýttust. Þess í stað náði Afturelding að komast inn í leikinn og fengu þær færi einnig, sem skilaði sér í markiað rétt fyrir leikhlé. Einhvern veginn náði Kristín Þóra Birigisdóttir að koma skoti á mark framhjá miðvörðum Þórs/KA, með jörðinni og alveg út við stöng sem var erfitt fyrir Hörpu að ná til.

Afturelding kom betur inn í seinni hálfleikinn og ekki laust við að færi smá hrollur um gestina á fyrstu mínútum seinni hálfleiksins, en eftir sem áður vantaði að nýta færin. Þór/KA náði svo betri tökum á leiknum þegar leið á seinni hálfleikinn og átti nokkrar hættulegar sóknir. Það skilaði sér loksins í marki á 82. mínútu. Andrea Mist Pálsdóttir tók þá hornspyrnu frá vinstri og Arna Eiríksdóttir skallaði boltann í markið af markteig. Fyrsta mark Örnu fyrir Þór/KA, en hún er lánsmaður frá Val eins og komið hefur fram. Minnstu munaði að Hulda Ósk Jónsdóttir, sem var að spila sínar fyrstu mínútur með Þór/KA á tímabilinu, skoraði þriðja mark liðsins í uppbótartíma, en markvörður Aftureldingar varði vel eftir að Hulda Ósk komst ein í gegn.

Þetta dugði, þrjú stig í pokann þó svo leikurinn hafi ekki verið sá besti. Það verður ekki spurt að því þegar taflan verður skoðuð í haust.

Ekki frábær fótboltaleikur

Perry Mclachlan þjálfari kvaðst ánægður að sjá hvernig breiddin í hópnum skipti máli í dag:

"Wasn’t the best football display from us, but we take the points home none the less, these are often the most important points when you don’t have the best game. The whole squad played a part today, was good to see the depth in our squad play a huge part in today's win."

Lauslega þýtt á íslensku:
„Við buðum ekki upp á besta fótboltann, en við tökum stigin með okkur heim engu að síður. Þetta eru oft mikilvægustu stigin þegar þú átt ekki þinn besta leik. Allt liðið átti þátt í þessu í dag og það var gott að sjá breiddina í hópnum eiga stóran þátt í þessum sigri í dag," sagði Perry.

„Ánægð að ná markametinu“

„Þetta var ekki fallegasti fótboltaleikurinn í dag, en það eru akkúrat þeir leikir sem að er svo mikilvægt að klára. Að eiga ekkert spes dag, en taka samt þrjú stig," segir Sandra María Jessen, og er auðvitað spurð um markametið einnig, flest mörk í efstu deild fyrir Þór/KA:

„Ég er virkilega stolt að vera búin að ná markametinu, það er persónulegt markmið sem ég hef stefnt að. Var svekkjandi að ná því ekki áður en ég samdi við Leverkusen, en þá er gott að koma heim aftur og vinna í því að ná því. Nú er bara að bæta í og reyna að skora fleiri."

Þolinmæði og þroski

Jón Stefán Jónsson þjálfari lýsti ánægju með þolinmæði og þroska liðsins: „Mjög ánægjuleg úrslit á erfiðum útivelli. Ánægður með þolinmæðina og þroskann sem liðið sýndi. Öflugur varnarleikur gefur alltaf möguleika a sigri.“

Hulda Björg Hannesdóttir fyrirliði minnir á að þegar upp er staðið eru það stigin þrjú sem skipta máli. „Ekki besti leikur sem við höfum spilað en í lok leiks er eru það stigin sem skipta máli. Við sýndum karakter og tökum glaðar 3 stig með heim.“

Leikskýrslan á vef KSÍ
Besta deildin - stöðutafla, úrslit og leikjadagskrá - á vef KSÍ.

Úr öðrum fjölmiðlum

Skýrslan á fotbolti.net
Sandra María á visir.is
Hulda Björg Hannesdóttir í viðtali við fotbolti.net:
Arna Eiríksdóttir á mbl.is