Þrjú stig í pokann

Marki fagnað af innlifun. Mynd: Þórir Tryggva.
Marki fagnað af innlifun. Mynd: Þórir Tryggva.

 

Þrjú stig í pokann og Þór/KA þokast upp töfluna með sigri á Keflavík í gær, 3-2.

Leikur Þórs/KA og Keflavíkur var fjörugur, en lengst af var útlit fyrir að ekkert yrði skorað í fyrri hálfleiknum. Það breyttist þó á 42. mínútu þegar Tiffany McCarty skallaði boltann í markið eftir góða fyrirgjöf frá Huldu Ósk. Virkilega góður tími til að skora og halda til búningsklefa í leikhléinu með eins marks forystu.

Segja má að Þór/KA hafi byrjað seinni hálfleikinn á sömu nótum og stelpurnar enduðu þann fyrri, með marki. Sandra María Jessen skallaði þá boltann af öryggi í markið eftir að Hulda Ósk Jónsdóttir hafði leikið á varnarmann hægra megin í teignum og átt skot að marki sem markvörður Keflavíkur varði út í teiginn. En Keflvíkingar voru ekkert á þeim buxunum að gefast upp og á 64. mínútu minnkaði Vigdís Lilja Kristjánsdóttir muninn þegar hún fékk frábæra sendingu og stakk sér inn fyrir vörnina, 2-1.

Aðeins sjö mínútum eftir að Keflavík hafði minnkað muninn bætti Margrét Árnadóttir við þriðja markinu fyrir Þór/KA þegar hún, Tiffany og Sandra María náðu hröðu áhlaupi gegn fámennri vörn Keflavíkur. Sóknin endaði með sendingu frá Tiffany inn í teiginn til vinstri og Margrét átti skot í nærstöng og inn, 3-1. Aftur minnkuðu Keflvíkingar muninn þegar Caroline Van Slambrouck náði góðu skoti af löngu færi, alveg út við stöng, 3-2. Bæði lið fengu ágæt færi til að skora, en þetta urðu lokatölurnar.

Leikskýrslan á vef KSÍ.

Staðan í deildinni, úrslit leikja og leikjadagskrá á vef KSÍ.

Að venju völdu sérfræðingar okkar besta leikmann í leiknum og varð Tiffany McCarty fyrir valinu. Hlaut hún að launum gjafabréf frá Sprett-inum.

Mynd: Þórir Tryggva.

Þórir Tryggva er iðinn við kolann með myndavélina sína á hliðarlínunni og sendi okkur myndir úr leiknum - myndaalbúm Þóris - og fær okkar bestu þakkir fyrir.

Batnandi leikur og byggjandi á

Þjálfarar Þórs/KA voru að vonum jákvæðir þegar heimasíðan heyrði í þeim til að fá álit þeirra á leiknum.

Jón Stefán Jónsson: „Ánægður með sigurinn og karakterinn að ná að landa þessu þrátt fyrir mótlæti. Spiluðum betri fótbolta en undanfarið og það skilaði sér í fallegum mörkum. Getum svo sannarlega byggt á þessu.“

Perry Maclachlan: „Þetta var vel verðskuldað, við náðum að halda boltanum vel og það skilaði mörkum. Þetta gefur okkur tækifæri til að byggja á fyrir það sem eftir er af leiktíðinni.“

Með sigrinum fór Þór/KA upp fyrir Keflavík í töflunni og situr nú í sjöunda sætinu með níu stig eftir sjö umferðir, hefur unnið þrjá leiki og tapað fjórum. Næsti leikur liðsins í Bestu deildinni verður á móti Stjörnunni á útivelli mánudaginn 6. júní kl. 14:00.