Karfan er tóm.
Tvö lið frá Þór/KA í 3. flokki öttu kappi við lið á suðvesturhorninu um helgina. Afraksturinn er þrír sigrar og eitt jafntefli. Liðin eru á toppi A- og C-riðla.
Þór/KA2 spilar í C-riðli í fyrstu lotunni, en virðist eiga góða möguleika á að vinna sig upp í B-riðil fyrir aðra lotuna. Þór/KA2 mætti Þrótti í Laugardalnum á föstudagskvöld og vann öruggan 5-1 sigur. Þær Rebekka Sunna Brynjarsdóttir og Rut Marín Róbertsdóttir skoruðu báðar tvö mörk og Karlotta Björk Andradóttir eitt.
Leikskýrslan á vef KSÍ.
Daginn eftir mættu stelpurnar Fjölni í Grafarvoginum og sigruðu, 2-0, með tveimur mörkum frá Emilíu Björk Óladóttur.
Leikskýrslan á vef KSÍ.
Þór/KA2 hefur lokið fjórum leikjum og er á toppi C-riðils með tíu stig, en liðið á eftir að mæta Sindra/Neista á útivelli og Grindavík á heimavelli.
Mótið - staða, úrslit, leikjadagskrá - á vef KSÍ.
Fyrri leikurinn hjá Þór/KA í A-riðlinum fór fram á laugardag, gegn Breiðabliki/Augnabliki í Kópavoginum. Þar var „stál í stál, lítið um færi,“ eins og annar þjálfaranna orðaði það eftir leikinn, en honum lauk með markalausu jafntefli.
Leikskýrslan á vef KSÍ.
Seinni leikur liðsins fór fram í gær, gegn FH/ÍH í Hafnarfirði. Að þessu sinni voru það Karlotta Björk Andradóttir og Ólína Helga Sigþórsdóttir sem sáu um að skora mörkin og tryggja 2-1 sigur.
Leikskýrslan á vef KSÍ.
Eftir leiki helgarinnar hefur liðið lokið fimm leikjum, unnið fjóra og gert eitt jafntefli, situr á toppnum með 13 stig. Þór/KA á eftir að mæta HK og Haukum/KÁ á heimavelli í þessari fyrstu lotu.
Mótið - staðan, úrslit og leikjadagskrá - á vef KSÍ.