Þriðji sigurinn í Lengjubikar

Aftur markaveisla í Boganum, sjö mörk í dag, eins og síðast í Boganum.
Aftur markaveisla í Boganum, sjö mörk í dag, eins og síðast í Boganum.

Þór/KA gerði sér lítið fyrir og sigraði Íslandsmeistara Vals í þriðja leik sínum í Lengjubikarnum, 4-3. Sandra María Jessen skoraði þrennu í fyrri hálfleik.

Tahnai Annis fékk loks atvinnuleyfi í gær og var því lögleg með Þór/KA í dag. Spilaði sinn fyrsta keppnisleik á Íslandi síðan haustið 2014. Stelpurnar í Þór/KA mættu alls óhræddar til leiks gegn Íslandsmeisturunum, en bæði lið tefldu að hluta fram mjög ungum og efnilegum leikmönnum í bland við þá reyndari. Miklar breytingar hafa orðið hjá báðum þessum liðum, auk þess sem leikmenn vantaði vegna meiðsla. 

Þau sem lögðu leið sína í Bogann í dag þurftu ekki að bíða lengi eftir fyrsta markinu. Það kom á 9. mínútu og enn var það Sandra María Jessen sem skorar eins og enginn sé morgundagurinn. Þór/KA spilaði út úr vörninni, Ísfold Marý yfir á Kristu Dís, hún sendi langan bolta upp hægri kantinn á Unu Móeiði sem sendi háan fyrir á fjærstöng þar sem Sandra María smellti boltanum með vinstr í fjærhornið. Annað markið kom á 27. mínútu eftir misheppnaða sendingu á milli varnarmanna Vals, Sandra María komst inn í sendinguna, spilaði áfram inn í vítateiginn vinstra megin og skoraði, stöngin inn.

Fyrsta mark Vals kom svo á 29. mínútu eftir varnarmistök hinum megin þar sem Ásdís Karen Halldórsdóttir vann boltann af varnarmanni, lék inn í teiginn og sendi svo út á Bryndísi Örnu Níelsdóttur sem skoraði. Færibandið var komið af stað og Þór/KA var ekki lengi að svara fyrir sig. Það tók þær 22 sekúndur frá því að þær hófu leik aftur eftir mark Vals þar til staðan var orðin 3-1. Sandra María á þá sending frá miðjunni upp hægra megin á Huldu Ósk, hún spilar áfram og leggur boltann út í teiginn á Unu Móeiði, sem á skot að marki, varið, en markvörður Vals nær ekki að halda boltanum og Amalía Árnadóttir er þar fyrst á boltann og ýtir honum yfir línuna. Örstuttu síðar, á 35. mínútu, klárar Sandra María þrennuna með skoti af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá Huldu Ósk. Ótrúleg staða eftir fyrri hálfleikinn, 4-1.

Valsliðið kom heldur beittara út í seinni hálfleikinn, en náðu þó ekki að koma inn marki fyrr en á 73. mínútu. Ásdís Karen átti þá skot að marki sem Harpa varði, en varnarmaður Þórs/KA varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net. 4-2. Ódýrt víti færði gestunum svo þriðja markið á 85. mínútu, en Harpa var nálægt því að verja skot Ásdísar Karenar. Þrátt fyrir að sækja meira á lokakaflanum tókst gestunum ekki að bæta við fjórða markinu og sætur 4-3 sigur á Íslandsmeisturunum í höfn.

Sandra María Jessen skoraði sína aðra þrennu í mótinu, samtals búin að skora sjö mörk í þremur leikjum og er markahæst í A-deildinni. Þór/KA er með fullt hús í riðli 1 í A-deild Lengjubikarsins, níu stig eftir þrjá leiki, eins og Þróttur, sem vann Selfoss í dag, 3-0. Þór/KA mætir einmitt Þrótturum á útivelli næstkomandi föstudag, 9. mars kl. 19, á nýjum gervigrasvelli á Þróttarsvæðinu, Þróttheimum, þar sem Valbjarnarvöllur var áður. 

Leikskýrslan á vef KSÍ.
Mótið á vef KSÍ.

Hér má sjá myndband með mörkum og atvikum úr leiknum.


Þór/KA - Valur 4-3 (4-1)
9. mínúta: 1-0 - Sandra María Jessen - Stoðsending: Una Móeiður Hlynsdóttir
27. mínúta: 2-0 - Sandra María Jessen
29. mínúta: 2-1 - Bryndís Arna Níelsdóttir - Stoðsending: Ásdís Karen Halldórsdóttir
31. mínúta: 3-1 - Amalía Árnadóttir - Stoðsending: Una Móeiður Hlynsdóttir 
35. mínúta: 4-1 - Sandra María Jessen - Stoðsending: Hulda Ósk Jónsdóttir
73. mínúta: 4-2 - Sjálfsmark
85. mínúta: 4-3 - Ásdís Karen Halldórsdóttir (v)


Þeim leiðist ekki!