Þór/KA2 deildarmeistari í B-riðli 3. flokks

Fyrir lokaleikinn. 
Aftari röð frá vinstri: Embla Mist Steingrímsdóttir, Inga Sóley Jónsdóttir, Mar…
Fyrir lokaleikinn.
Aftari röð frá vinstri: Embla Mist Steingrímsdóttir, Inga Sóley Jónsdóttir, Marsibil Stefánsdóttir, Erika Rakel Melsen Egilsdóttir, Anna Lovísa Arnarsdóttir, Auðbjörg Eva Häsler, Katrín Lilja Árnadóttir og Ásdís Fríður Gautadóttir.
Fremri röð frá vinstri: Manda María Jóhannsdóttir, Edda Júlíana Jóhannsdóttir, Rósa Signý Guðmundsdóttir, Guðrún Lára Atladóttir, Dagmar Huld Pálsdóttir og Diljá Blöndal Sigurðardóttir.
- - -

Þór/KA teflir fram tveimur A-liðum í 3. flokki á tímabilinu sem er um það bil að ljúka. Þór/KA 2 (A2) hefur því að mestu átt í höggi við A-lið annarra félaga, en stelpurnar hafa ekki látið það halda aftur af sér. Í dag urðu þær deildarmeistarar, unnu B-riðilinn í lotu 3 eftir 4-2 sigur gegn RKVN í Boganum.

Þór/KA2 hóf leik í C-riðlinum í lotu 1 og vann riðilinn, náði 18 stigum í sjö leikum, vann sex leiki og tapaði aðeins einum. Þá var komið að því að fara þrepi ofar og spila í B-riðlinum í lotu 2. Þar voru erfiðari keppinautar og náði liðið naumlega að forðast fall í C-riðilinn aftur. Tveir sigrar og fimm töp, sex stig úr sjö leikjum og liðið endaði í 6. sæti af átta liðum í lotu 2 og hélt því áfram í B-riðlinum í lotu 3. Liðinu gekk mun betur í lotu 3, vann fimm leiki og tapaði tveimur, endaði á toppnum með 15 stig úr sjö leikjum. Með 4-2 sigri á RKVN í dag tryggði liðið sér efsta sætið.

Verðlaun eru þó aðeins veitt fyrir sigur í A-riðlinum þar sem keppt er um Íslandsmeistaratitil, en við ætlum að líta svo á að Þór/KA2 sé deildarmeistari í B-riðli (B-deild) eftir þetta keppnistímabil. Bikarasafnið geymir góðan slatta af KSÍ-bikurum merktum 3. flokki og því var einn slíkur einfaldlega gripinn úr safninu og afhentur fyrirliða liðsins, Eriku Rakel Melsen Egilsdóttur, að leik loknum í dag. Myndatökur eru mikilvægar til að varðveita minningar og myndir verða betri með bikar. Einn slíkur var því endurnýttur í leikslok í dag og afhentur liðinu fyrir myndatökur, eins og meisturum sæmir.


Ánægðar með árangurinn í sumar og mega sannarlega vera það. 

Aftari röð frá vinstri: Ásdís Fríður Gautadóttir, Katrín Lilja Árnadóttir, Anna Lovísa Arnarsdóttir, Marsibil Stefánsdóttir, Erika Rakel Melsen Egilsdóttir, Auðbjörg Eva Häsler og Manda María Jóhannsdóttir.

Fremri röð frá vinstri: Embla Mist Steingrímsdóttir, Diljá Blöndal Sigurðardóttir, Dagmar Huld Pálsdóttir, Rósa Signý Guðmundsdóttir, Edda Júlíana Jóhannsdóttir og Inga Sóley Jónsdóttir. Fyrir framan er Guðrún Lára Atladóttir.

- - -

Þór/KA2 - RKVN 4-2 (2-0)

Brugðið á leik með bikarinn.