Karfan er tóm.
Þór/KA og Völsungur hafa átt í óformlegu samstarfi í vetur, en nú er komið að því að staðfesta það og halda áfram, taka það á næsta stig.
Eins og frá hefur verið sagt hér hafa ungir leikmenn úr okkar röðum skipt í Völsung í vetur og spilað með liðinu í Lengjubikarnum og ekki bara það heldur vann Völsungur C-deild Lengjubikarsins þegar stelpurnar sigruðu Fjölni í vítaskpyrnukeppni eftir 1-1 jafntefli í úrslitaleiknum. Þetta samstarf í vetur var gert í tilraunaskyni þar sem meistaraflokkur Völsungs var heldur fáliðaður og þurfti liðsstyrk til að tefla fram öflugu liði í Lengjubikarnum. Þegar upp var staðið höfðu sjö leikmenn frá Þór/KA skipt yfir í Völsung á tímabilinu frá marsbyrjun fram í apríllok. Þetta eru þær Anna Guðný Sveinsdóttir, Arna Rut Orradóttir, Helga Dís Hafsteinsdóttir, Ísabella Júlía Óskarsdóttir, Júlía Margrét Sveinsdóttir, Marey Dóróthea Maronsdóttir Olsen og Ólína Helga Sigþórsdóttir.
Nú hafa þjálfarar og forráðamenn félaganna hist og farið yfir reynsluna, mótað stefnu um framhaldið og verður það innsiglað formlega í dag með heimsókn meistaraflokks og 2. flokks Þórs/KA til Húsavíkur þar sem verður sameiginleg æfing beggja félaganna.
Frá þessu segir Jóhann Kristinn Gunnarsson í pistli hér á heimasíðunni, en helstu punktar frá Jóhanni um samstarfið eru:
„Allur hópurinn tekur þátt í endurheimt og fótboltaæfingu og býður Völsungur í mat á eftir og svo í sjóböðin (Geosea) áður en heim er haldið. Hópurinn sem fer saman í þetta telur um 40 stelpur. Tilvalin leið til að hrista af sér vonbrigði gærdagsins, þétta raðirnar og setja stefnuna á næsta leik!“ skrifar Jóhann í pistli sínum hér á heimasíðunni.
Una Móeiður Hlynsdóttir var á samningi hjá Þór/KA og var lánuð til Völsungs í fyrrasumar og stóð sig frábærlega. Hún er núna í meistaraflokkshópi Þórs/KA, en hefur ekki spilað að undanförnu vegna meiðsla. Mynd: Þórir Tryggva