Úrslitaleikur Lengjubikarsins í dag

Úrslitaleikur A-deildar Lengjubikarsins fer fram í dag þegar Þór/KA og Stjarnan mætast í Garðabænum. Leikurinn hefst kl. 16.

Við hvetjum okkar fólk á höfuðborgarsvæðinu til að mæta í Garðabæinn og styðja stelpurnar í þessum úrslitaleik.

Þór/KA hefur tvisvar unnið Lengjubikarinn, A-deildina, en það var árin 2009 og 2018. Í bæði skiptin mætti liðið Stjörnunni í úrslitaleiknum - eins og í dag.

Í báðum þessum úrslitaleikjum fór rauða spjaldið á loft. Sandra Sigurðardóttir, þá markvörður Stjörnunnar, fékk að líta rauða spjaldið undir lok leiks 2009 þegar Stjarnan var 2-1 yfir, en eftir það skoraði Þór/KA tvisvar. Í úrslitaleiknum 2018 fékk aðstoðarþjálfari Stjörnunnar rautt í fyrri hálfleik og Bianca Sierra, varnarmaður Þórs/KA, fékk tvö gul á sömu mínútunni í seinni hálfleik. 

3-2 sigur í Kórnum 2009

Eftir að hafa unnið Breiðablik 1-0 í undanúrslitum mætti Þór/KA liði Stjörnunnar í úrslitaleiknum 2009. Leikurinn fór fram í Kórnum 2. maí 2009. Mateja Zver (2) og Rakel Hönnudóttir skoruðu mörk Þórs/KA í 3-2 sigri. Meðal leikmanna Stjörnunnar í þeim leik var Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, þá 21s árs, en hún er sem kunnugt er nýgengin í raðin Stjörnunnar aftur eftir atvinnumennsku erlendis.

Ótrúlegur úrslitaleikur 2018

Þór/KA og Stjarnan mættust aftur í úrslitaleik A-deildar Lengjubikarsins í Boganum 24. apríl 2018. Stjarnan komst yfir á 6. mínútu og Helena Jónsdóttir markvörður meiddist og þurfti að fara af velli. Stjarnan komst í 2-0, en Stephany Mayor skoraði úr víti í lok fyrri hálfleiks. Andrea Mist Pálsdóttir jafnaði svo leikinn á 77. mínútu, en hún er nú leikmaður Stjörnunnar og mætir því Þór/KA í úrslitaleiknum á morgun.

Leikurinn endaði 2-2 og þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni. Þar varði Sara Mjöll Jóhannsdóttir, sem hafði komið inn á fyrir Helenu í byrjun leiks, tvær spyrnur og Þór/KA vann vítaspyrnukeppnina 4-2.