Tap í Laugardalnum á laugardaginn

Emelía Ósk Krüger skoraði eina mark liðsins gegn Þrótti eftir sendingu frá Margréti Árnadóttur.
Emelía Ósk Krüger skoraði eina mark liðsins gegn Þrótti eftir sendingu frá Margréti Árnadóttur.

Þór/KA er í 3. sæti riðils 1 í A-deild Lengjubikars kvenna að loknum tveimur umferðum eftir tap fyrir Þótti í Reykjavík síðastliðinn laugardag. Valur og Þróttur eru efst með sex stig úr tveimur leikjum, en Þór/KA er með þrjú stig.

Þróttur skoraði snemma í báðum hálfleikjum, en eina mark okkar kom í viðbótartíma. Þá hafði Sandra María Jessen átt skot í þverslá og niður. Í upptöku Stöðvar 2 sýnist mögulegt að boltinn hafi farið inn fyrir marklínuna áður en hann barst aftur út í teiginn. Margrét Árnadóttir var fyrst að átta sig, náði í boltann og sendi á Emelíu Ósk Krüger og hún skoraði af stuttu færi. 

Þróttur - Þór/KA 2-1 (1-0)

  • 1-0 - Freyja Karín Þorvarðardóttir (6')
    2-0 - Þórdís Elva Ágústsdóttir (50')
    2-1 - Emelía Ósk Krüger (90+2'). Stoðsending: Margrét Árnadóttir
  • Leikskýrslan
  • Staðan í riðlinum

Næsti leikur liðsins er heimaleikur gegn Fram sem fram fer í Boganum sunnudaginn 23. febrúar og hefst kl. 15.

Tölur og fróðleikur

  • 10 - Hulda Björg Hannesdóttir er að hefja sitt 10. tímabil með meistaraflokki Þórs/KA. Hún spilaði fyrsta meistaraflokksleikinn sinn 19. mars 2016 í 2-0  sigri á Selfyssingum og skoraði svo fyrsta markið viku síðar gegn Breiðabliki. Seinna sama ár kom hún við sögu í tveimur leikjum með Þór/KA í Pepsi-deildinni. 
  • 12 - Harpa Jóhannsdóttir spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik 2014 og er því að hefja 12. tímabilið sitt í meistaraflokki. Hún er að hefja sitt 11. tímabil með Þór/KA, en 2018 varði hún mark Hamranna. Fyrsti leikurinn var 8-1  sigur á FH 27. september 2014.
  • 14 - Hulda Ósk Jónsdóttir er reyndar einnig að hefja sitt 10. tímabil með Þór/KA og sitt 14. tímabil í meistaraflokki. Fyrstu árin í meistaraflokki spilaði hún fyrir Völsung og KR, en óslitið með Þór/KA frá árinu 2016, en kom reyndar við sögu í nokkrum leikjum með Þór/KA í Lengjubikarnum 2013 einnig og spilaði í fyrsta skipti með meistaraflokki Þórs/KA gegn Val í Lengjubikarnum 2. mars 2013.
  • 20 - Sonja Björg Sigurðardóttir spilaði sinn 20. leik fyrir Þór/KA. Hún hefur einnig spilað fyrir Hamrana og Völsung og á samtals að baki 58 meistaraflokksleiki og hefur skorað 21 mark í þeim leikjum.
  • 70 - Una Móeiður Hlynsdóttir spilaði sinn 70. meistaraflokksleik þegar hún kom inn sem varamaður í seinni hálfleiknum. Af þessum 70 leikjum eru 36 fyrir Þór/KA, en 34 fyrir Hamrana og Völsung. Mörkin eru 11, en Una er einmitt að jafnaði í treyju númer 11 hjá Þór/KA.
  • 90 - Agnes Birta Stefánsdóttir spilaði sinn 90. leik fyrir Þór/KA, en meistaraflokksleikirnir eru samtals 112 því hún hefur einnig spilað fyrir Hamrana og Tindastól. 
  • 170 - Hulda Björg Hannesdóttir spilaði sinn 170. leik í meistaraflokki ef aðeins eru taldir leikir í deild, bikar, meistarakeppni og Evrópukeppni, eins og sumir vilja haga leikjatalningu. Allir leikir Huldu Bjargar eru fyrir Þór/KA enda að hefja sitt 10. tímabil með meistaraflokki, eins og áður sagði. 
  • 210 - Leikurinn gegn Þrótti var jafnframt 210. leikur Huldu Bjargar í meistaraflokki, að meðtöldum leikjum í Lengjubikar.