Karfan er tóm.
Annan leikinn í röð, eftir góða frammistöðu lengst af leiks gegn öðru af toppliðum Bestu deildarinnar, sitja Þór/KA-stelpur eftir með sárt ennið og ekkert stig út úr leik kvöldsins. Valur fór með 3-2 sigur af hólmi í hörkuleik.
Gestirnir voru á undan að skora, komust yfir á 10. mínútu leiksins, en Karen María Sigurgeirsdóttir jafnaði nokkrum mínútum síðar með frábæru skoti rétt utan teigs eftir hornspyrnu.
Annað mark Vals kom á 37. mínútu, en ekki löngu áður hafði Sandra María Jessen átt þrumuskot sem söng í þverslánni á marki Vals. Því miður stutt á milli þess að ná forystunni eða lenda undir.
Þriðja mark Vals kom þegar 17 mínútur lifðu leiks, en Þór/KA minnkaði muninn í uppbótartíma. Annan leikinn í röð kom Bríet Jóhannsdóttir inn á sem varamaður og skoraði örstuttu síðar, rétt um tveimur mínútum eftir að hún kom inn á. Því miður gafst ekki tími né tækifæri til að lauma inn einu marki enn og ná í stig.
Niðurstaðan 2-3 tap og Þór/KA áfram með 22 stig og situr í 5. sætinu eftir 16 leiki. Stjarnan á reyndar möguleika á að fara upp fyrir Þór/KA þegar Garðbæingar mæta Breiðabliki á morgun.
Síðustu tveir leikir liðsins áður en kemur að tvískiptingu deildarinnar eru útileikir, fyrst gegn á Selfossi sunnudaginn 20. ágúst kl. 14 og svo á Sauðárkróki sunnudaginn 27. ágúst kl. 14.