Tap gegn Tindastóli

Átta úr þessum hópi spiluðu gegn Tindastóli í gær. Myndin er af Íslandsmeisturum Þórs/KA í keppni B-…
Átta úr þessum hópi spiluðu gegn Tindastóli í gær. Myndin er af Íslandsmeisturum Þórs/KA í keppni B-liða 2021 ásamt þjálfurum.

 

Það leit heldur undarlega út á leikjalistum á ksi.is í gær þegar Þór/KA átti leik í Keflavík kl. 13 og Boganum kl. 17:15, en átti sér eðlilegar skýringar.

Í sparnaðarskyni var þátttaka Þórs/KA í Faxaflóamótinu færð á tvær helgar, spilað á föstudagskvöldi og sunnudegi. Þetta þýddi meðal annars árekstur við leiki í Kjarnafæðismótinu, en um leið tækifæri fyrir yngri leikmenn. Meistaraflokkurinn var með 19 leikmanna hóp fyrir sunnan um helgina og var ákveðið að leikmenn úr 2. og 3. flokki myndu spila leikinn við Tindastól. Í meistaraflokkshópnum sem fór suður voru svo reyndar líka nokkuð margar úr 2. og 3. flokki.

Það var ekki ómerkari maður en Halldór Jón Sigurðsson - Donni - sem mætti með lið Tindastóls í Bogann. Sauðkrækingar tefldu fram öflugu liði, tveir erlendir leikmenn sem spilað hafa með liðinu áður, Amber Michel og Murielle Tiernan.

Ungu stelpurnar með flottan leik

Ungu stelpurnar í Þór/KA áttu flottan leik á móti góðu liði Tindastóls, að sögn Birkis Hermanns Björgvinssonar, eins af þjálfurm 2. og 3. flokks. Þrátt fyrir góða frammistöðu voru það gestirnir sem sáu um að skora mörkin. Murielle Tiernan opnaði leikinn með marki á 5. mínútu og Elísa Bríet Björnsdóttir bætti við öðru marki á 25. mínútu. Staðan 0-2 í leikhléi. Það var svo Aldís María Jóhannsdóttir sem bætti við þriðja markinu strax í upphafi seinni hálfleiks.

Lokatölur: Þór/KA 0 - Tindastóll 3.

Úrslit mótsins ekki ráðin

Leikskýrslan á vef KSÍ.

Staðan í Kjarnafæðismótinu.

Þór/KA hefur lokið þátttöku í mótinu, en endanleg röð liggur ekki fyrir þar sem bæði Tindastóll og FHL eiga eftir að mæta Völsungi. Staðan núna er þannig að Þór/KA hefur sex stig, FHL og Tindastóll þrjú og Völsungur er án stiga