Stórt tap á Hlíðarenda

Stutt yfirferð úti á velli eftir leik. Vonbrigðin skilin eftir á Valsvellinum og einbeitingin sett á…
Stutt yfirferð úti á velli eftir leik. Vonbrigðin skilin eftir á Valsvellinum og einbeitingin sett á næsta verkefni.

 

Þór/KA mátti þola 7-0 ósigur gegn Val í fjórðu umferð Lengjubikarsins í gær.

Ef til vill er best að hafa sem fæst orð um þennan leik. Ýmislegt fór úrskeiðis inni á vellinum sem varð til þess að Valsarar gengu á lagið og skoruðu sjö mörk. Eftir varfærnar fyrstu 20 mínúturnar komu þrjú mörk frá heimaliðinu í síðari hluta fyrri hálfleiksins. Þrátt fyrir góðan ásetning tókst Þór/KA ekki að klóra í bakkann heldur bættu Valsarar við fjórum mörkum í seinni hálfleik.

Tækifæri til að bæta það sem þarf

Leikurinn gefur öllum sem að liðinu standa tækifæri til að greina það sem þarf að bæta og vinna í því áfram, enda aðeins 12. mars þegar leikurinn fór fram og enn tæpar sjö vikur í fyrsta leik á Íslandsmóti - sumir myndu segja aðeins sjö vikur, en á þeim tíma er margt hægt að gera og auðvitað ekki tími núna til að örvænta og afskrifa.

Leikskýrslan á vef KSÍ.

Enn möguleiki á undanúrslitum

Þrátt fyrir tapið í gær á Þór/KA enn möguleika á 2. sæti í riðlinum og þar með sæti í undanúrslitum Lengjubikarsins, en þarf þá að treysta á að Þróttur taki stig af Aftureldingu í lokaumferðinni, ásamt því að Þór/KA verður að vinna sinn leik gegn Fylki. Afturelding hefur nú sjö stig og mætir Þrótti á föstudag, Þór/KA hefur sex stig og mætir Fylki á laugardag. 

Staðan í riðlinum og úrslit leikja á vef KSÍ.

Fjölmennum í Bogann

Lokaleikur okkar í riðlinum verður laugardaginn 19. mars kl. 18:30 í Boganum. Þar fá stelpurnar tækifæri til að bæta fyrir slæman dag í gær og gera betur - og þar fær stuðningsfólk okkar einnig tækifæri til að sýna að við stöndum með stelpunum í gegnum súrt og sætt.