Stærra hlutverk en áður og er enn að læra og bæta mig

Sandra María Jessen með dótturina Ellu Ylví eftir sigur Þórs/KA gegn Breiðabliki í haust. Mynd: Egil…
Sandra María Jessen með dótturina Ellu Ylví eftir sigur Þórs/KA gegn Breiðabliki í haust. Mynd: Egill Bjarni Friðjónsson.
- - -

A-landsliðið leikur í kvöld mikilvægan landsleik við Wales. Okkar kona, Sandra María Jessen, er að sjálfsögðu í hópnum og klár í slaginn í kvöld. Við heyrðum í henni hljóðið á leikdegi.

Sandra María segir að sér finnist hópurinn vera á góðri leið. Miklar og hraðar breytingar hafi átt sér stað í hópnum undanfarið og leikmenn að fá ný og mögulega stærri hlutverk en þeir voru með undanfarin ár. Sjálf segir hún það alltaf mikinn heiður að fá að vera hluti af þessum hópi.

Eins og áður hefur komið fram er leikurinn í kvöld mikilvægur fyrir íslenska landsliðið, eins og auðvitað allir landsleikir. Úrslit leiksins í kvöld geta nefnilega ráðið því hvort Ísland verður áfram í A-deild Þjóðadeildarinnar. Ísland mætir Wales og hefst leikurinn kl. 19:15. Liðin eru í 3. og 4. sæti riðilsins sem stendur, en það lið sem endar í 3. Sæti fer í umspilsleik í febrúar um að halda sér í A-deildinni.

Þjóðadeildin - riðill Íslands


Frá æfingu landsliðsins í gær. Sandra María er fyrir miðri mynd. Myndin er tekin af Facebook-síðu KSÍ. 

„Ég hef mjög góða tilfinningu fyrir leiknum í kvöld á móti Wales,“ segir Sandra María. „Æfingarnar hafa verið mjög góðar og það er góð stemning í hópnum. Wales eru með marga flotta leikmenn sem spila flestar í ensku úrvalsdeildinni, þannig að þetta eru gæðaleikmenn sem við erum að mæta. Því þurfum við að leggja okkur allar fram til að ná settu markmiði, sem er að taka öll þrjú stigin. Síðan förum við auðvitað inn í Danaleikinn með það að markmiði að vinna leikinn, við munum gefa okkur allar 120% í verkefnið og verðum að sjá hverju það skilar okkur.“

Hún segir það draum flestra knattspyrnuiðkenda að komast í landsliðið og því sé hún alltaf jafn þakklát fyrir að vera hluti af hópnum, sérstaklega í ljósi þess að hún hefur gengið í gegnum meiðsli, búin að eignast barn og komin aftur í form og valin í landsliðið. „Því er ég að njóta þess í botn og er ekkert smá stolt að hafa fengið svona mikið traust í leikjunum hingað til. Það hefur gefið mér mikið og ýtir undir að mann langar að bæta sig enn meira til að geta gefið landsliðinu enn meira,“ segir Sandra María.

Sandra María hefur fengið stærra hlutverk í leikjunum á þessu ári en oftast áður með landsliðinu, hefur byrjað alla leiki liðsins í Þjóðadeildinni. Hún kom fyrst inn í landsliðið 2012, en hefur aldrei verið í jafn stóru hlutverki og í leikjunum á þessu ári.

„Ég er auðvitað mjög glöð með hvað ég hef fengið stórt hlutverk eftir að ég kom til baka eftir að hafa átt Ellu. Þetta er í fyrsta skipti sem mér hefur verið fengið svona stórt hlutverk. Þetta er því eitthvað nýtt fyrir mér og ég er bara enn að læra og bæta mig. Mér hefur fundist ganga þokkalega vel, maður hefur náð að leggja sitt af mörkum, en auðvitað alltaf svigrúm til bætingar,“ segir Sandra María Jessen.

Þór/KA óskar henni og landsliðinu góðs gengis í þeim verkefnum sem fram undan eru.