Þjálfarar, fyrirliðar og forráðamenn félaganna gerðu ekki ráð fyrir Þór/KA í toppbaráttunni. Fyrirsögn (skjáskot) úr Morgunblaðinu 11. maí 2012, tekið af timarit.is.
Besti leikmaðurinn, þjálfari ársins, markahæst ásamt annarri. Örlítið meiri upprifjun frá 2012.
- Í spá fyrirliða, þjálfara og forráðamanna liðanna tíu í Pepsi-deildinni lenti Þór/KA í 5. Sæti með 161 stig, en fyrir ofan voru ÍBV (206), Valur (243), Stjarnan (267) og Breiðablik efst með 273 stig.
- Í umfjöllun í Morgunblaðinu (Kristján Jónsson) fyrir mót í tengslum við spána var helst fjallað um Stjörnuna, Val, Breiðablik og ÍBV, en Þór/KA fékk þá umsögn að liðið myndi eiga erfitt með að halda sama dampi og árin á undan, „en öll lið í deildinni myndu sakna Rakelar og Mateju Zver.“
- ÍBV náði 2. sætinu 2012, sjö stigum á eftir Þór/KA og jafnar Stjörnunni að stigum en með betri markamun. Markvörður ÍBV allar mínútur í öllum leikjum þetta árið var Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir, sem seinna átti eftir að leika með Þór/KA og vinna Íslandsmeistaratitil með liðinu 2017, og spilaði þá allar mínútur í öllum leikjum í deildinni.
- Bandaríski markvörðurinn Chantel Nicole Jones var mikilvægur hlekkur í liði Þórs/KA þetta sumar og var hún valin besti leikmaður deildarinnar. „En Chantel skoraði ekkert mark af 53 mörkum okkar þetta sumar,“ segir þjálfarinn um þá umræðu að Þór/KA hafi unnið mótið á markmanninum. „En hún var langbest í sinni stöðu í deildinni! Það er óumdeilt.“
- Fimm úr Þór/KA voru valdar í lið ársins: Chantel Jones, Arna Sif Ásgrímsdóttir, Kayla June Grimsley, Katrín Ásbjörnsdóttir og Sandra María Jessen.
- Jóhann Kristinn Gunnarsson var valinn þjálfari ársins.
- Sandra María Jessen skoraði 18 mörk í deildinni þetta sumar og var jöfn Elínu Mettu Jensen á toppnum.
- Átta leikmenn komu við sögu í öllum 18 leikjum liðsins í deildinni þetta sumar: Arna Sif Ásgrímsdóttir, Chantel Nicole Jones, Gígja Valgerður Harðardóttir, Kayla June Grimsley, Lára Einarsdóttir, Sandra María Jessen, Thanai Lauren Annis og Þórhildur Ólafsdóttir.
- Alls komu 19 leikmenn við sögu í leikjum liðsins í Pepsi-deildinni þetta sumar, þ.e. þær sem byrjuðu leiki og/eða komu inn á sem varamenn. En fjórar stelpur úr 2. flokki voru að auki varamenn í einum eða fleiri leikjum, án þess að koma inn á. Helena Jónsdóttir markvörður var í hópnum í 17 leikjum af 18, en auk hennar komu þær Amanda Mist Pálsdóttir, Brynja Dögg Sigurpálsdóttir og Sigrún Ösp Aðalgeirsdóttir inn í hópinn í einum eða fleiri leikjum.
Hér má sjá niðurstöðu úr spá þjálfara, fyrirliða og forráðamanna félaganna í Pepsi-deildinni 2012. Ef smellt er á myndina opnast opna í Morgunblaðinu 11. maí 2012, á timarit.is.
Auglýsing í Morgunblaðinu 6. september 2012. Skjáskot af timarit.is.