Sonja Björg lánuð til Völsungs

Sonja Björg Sigurðardóttir (2006) mun leika með Völsungi í toppbaráttu 2. deildarinnar út tímabilið á lánssamningi frá Þór/KA.

Sonja Björg hefur komið við sögu í níu leikjum með Þór/KA í Bestu deildinni það sem af er tímabili, þremur leikjum í Mjólkurbikarnum og fjórum í Lengjubikarnum. Þá hefur hún einnig spilað með 2. flokki U20 í toppbaráttu A-deildar og er ein af þremur markahæstu leikmönnum í A-deildinni með níu mörk.

Sonja Björg hefur áður stigið niður fæti í Þingeyjarsýslunni til að spila fótbolta og skora mörk. Hún spilaði fyrir Völsung á lánssamningi sumarið 2022, skoraði þá 11 mörk í 14 leikjum í 2. deildinni, auk fjögurra marka í fimm leikjum í Lengjubikarnum. 

Samtals á Sonja Björg að baki 49 meistaraflokksleiki í mótum á vegum KSÍ. Þar af eru 18 með Þór/KA, 20 með Völsungi og 11 með Hömrunum. Fyrsti leikur hennar í meistaraflokki var með Hömrunum í mars 2021. Hennar fyrsta innkoma í leik í Bestu deildinni var 2. maí í sigurleik gegn Þrótti.

Félagaskipti Sonju Bjargar eru frágengin og má vænta þess að fyrsta verkefnið með Völsungi verði af skemmtilegra taginu því að venju á félagið heimaleik á Mærudögum. Mærudagsleikur Völsungs verður gegn Fjölni í dag kl. 18 á PCC-vellinum á Húsavík. Frítt er á leikinn. 

Völsungur er sem stendur í  2. sæti 2. deildar og með öruggt sæti í A-úrslitum deildarinnar. Leikurinn í kvöld er síðasti leikur liðsins í deildinni áður en henni verður þrískipt og spilað áfram um hvaða lið færast upp í Lengjudeildina. Fimm efstu liðin mætast í A-úrslitum þar sem spiluð er tvöföld umferð, samtals átta leikir á lið, og stendur sú keppni yfir frá 10. ágúst til 28. september. Fjögur efstu liðin, KR, Völsungur, Haukar og Einherji hafa þegar tryggt sér sæti í A-úrslitum, en ÍH og Fjölnir berjast um 5. sæti deildarinnar.


Sonja Björg með Völsungi sumarið 2022. Mynd: Hafþór Hreiðarsson.