Þór/KA vann Þrótt í þriðju umferð Bestu deildarinnar í gær. Annar sigurinn í röð og tveir sigrar í þremur leikjum í Bestu deildinni.
Gestirnir byrjuðu leikinn þó af mun meiri krafti en okkar konur, virtust ákveðnari og sóttu meira, en vantaði að skapa sér færi. Þór/KA vann sig hægt og örugglega inn í leikinn og mark á besta tíma, undir lok fyrri hálfleiks, gaf sjálfstraustið sem þurfti til að stýra seinni hálfleiknum betur en þeim fyrri. Með seinna markinu hertu þær tökin á leiknum, en Þróttarar náðu að skora mark á fjórðu mínútu uppbótartímans.
Þór/KA - Þróttur 2-1 (1-0)
Molar og fróðleikur
- 0 - Sandra María Jessen hefur ekki átt neina stoðsendingu í fyrstu þremur leikjum liðsins í Bestu deildinni í sumar. Af hverju? Af því að hún hefur skorað öll mörk liðsins.
- 1 - Sonja Björg Sigurðardóttir átti sína fyrstu innkomu í Bestu deildinni í gær þegar hún leysti Agnesi Birtu Stefánsdóttur af hólmi í uppbótartíma leiksins. Sonja Björg, sem að jafnaði spilar í framlínunni, kom inn í stöðu miðvarðar. Sonja Björg hefur samtals spilað 38 meistaraflokksleiki og skorað 17 mörk.
- 5 - Lara Ivanuša hefur átt fimm stoðsendingar í þeim sex leikjum sem hún hefur spilað fyrir félagið. Þrjár í fjórum leikjum í Lengjubikar og tvær í tveimur leikjum í Bestu deildinni.
- 32 - Lidija Kuliš fagnaði 32ja ára afmæli jafnframt því að vera í byrjunarliðinu í þriðja leiknum í röð í Bestu deildinni.
- 173 - er fjöldi þeirra sem lögðu leið sína í Bogann til að fylgjast með leiknum.
- 270 - Hulda Ósk Jónsdóttir er komin í 270 meistaraflokksleiki í KSÍ-mótum og Evrópukeppnum.