Karfan er tóm.
Þór/KA og Stjarnan gerðu 2-2 jafntefli í úrslitaleik Lengjubikarsins í Garðabænum í gær. Stjarnan hafði sigur í vítaspyrnukeppni.
Þór/KA hefur hafði eflaust strax í riðlakeppninni komið sparkspekingum á óvart, en spár og álit annarra skipta engu máli þegar góðir þjálfarar vinna með góðum leikmönnum. Liðið vann fjóra leiki af fimm í riðlakeppninni, tapaði einungis fyrir Þrótturum. Þór/KA lagði síðan Breiðablik á Kópavogsvelli í undanúrslitunum og mætti Stjörnunni í úrslitaleik mótsins í Garðabænum í gær.
Þór/KA komst tvisvar yfir í leiknum. Fyrst var það Sandra María Jessen sem skoraði skemmtilegt mark eftir fallega sókn þar sem Karen María Sigurgeirsdóttir átti sendingu inn á teiginn til Söndru Maríu og hún náði að renna boltanum fram hjá markverði Stjörnunnar. Sýndi sig þar að skotin þurfa ekki alltaf að vera föst. Markið kom á 15. mínútu leiksins. Stjarnan náði að jafna um stundarfjórðungi síðar. Staðan 1-1 í leikhléi.
Aftur náði Þór/KA forystunni þegar Hulda Ósk Jónsdóttir fékk boltann fyrir utan vítateig og skaut í fallegum boga yfir markvörð Stjörnunnar. Eftir sendingu fram og skalla frá miðverði Stjörnunnar náði Sandra María að potaboltanum til Huldu Óskar, sem skoraði þetta glæsimark á 63. mínútu.
Því miður náði liðið ekki að halda þessu forskoti og Stjarnan jafnaði aftur, 2-2, eftir 76 mínútna leik. Stjarnan sótti ákaft á lokakaflanum en tilraunir þeirra runnu út í sandinn, varnarmenn hentu sér fyrir skotin, Harpa varði það sem kom á markið og lokatölur því 2-2.
Ekki er framlengt í Lengjubikar heldur farið beint í vítaspyrnukeppni. Þar höfðu Stjörnustelpur sigur, 5-4. Á meðal þeirra sem skoruðu úr sínum vítum fyrir Stjörnuna voru tvær gamlar Þór/KA stelpur, Heiða Ragney Viðarsdóttir og Andrea Mist Pálsdóttir. Heiða Ragney er að hefja sitt þriðja tímabil með Stjörnunni, en Andrea Mist fór til Stjörnunnar frá Þór/KA eftir tímabilið 2022.
Þegar á allt er litið geta leikmenn og þjálfarar Þórs/KA borið höfuðið hátt eftir þetta mót sem lofar að mörgu leyti góðu fyrir „alvöruna“ þegar keppni í Bestu deildinni hefst í lok apríl. Fyrsti leikur Þórs/KA verður þá einmitt á sama velli, en liðið mætir Stjörnunni í Garðabænum miðvikudaginn 26. apríl.
0-1 – Sandra María Jessen (15‘) – Stoðsending: Karen María Sigurgeirsdóttir
1-1 – Snædís María Jörundsdóttir (34‘)
1-2 – Hulda Ósk Jónsdóttir (63‘) – Stoðsending: Sandra María Jessen
2-2 – Ólína Ágústa Valdimarsdóttir (77‘)
Leikskýrslan á vef KSÍ.
Úrslitakeppnin á vef KSÍ.
Riðlakeppnin - riðill 1 - riðill 2.
Leikir Þórs/KA í riðlinum