Karfan er tóm.
Þór/KA vann Keflavík í 11. umferð Bestu deildarinnar í gær og situr í 3. sæti deildarinnar með 19 stig.
Leikurinn einkenndist af mikilli baráttu, bæði á milli liðanna og svo baráttu beggja liða við vindinn á köflum. Að baki baráttunni liggur einstakt hugarfar leikmanna sem verja mörgum stundum í að vinna í alls kyns fjáröflunarverkefnum fyrir félagið sitt og ferðast 425 kílómetra í leikinn, á leikdegi, til að spila í 90 mínútur - og svo auðvitað aftur heim sömu leið, samtals 850 kílómetra. Gott að fá þrjú stig fyrir þetta framlag. Leikmenn náðu að virkja þessa orku í leiknum í gær og skiluðu henni í baráttu og vilja. Það skilaði svo eina marki leiksins og 1-0 sigur staðreynd.
Þór/KA fékk aukaspyrnu á vinstri kantinum. Jakobína Hjörvarsdóttir átti frábæra spyrnu inn á teiginn þar sem Hulda Björg tók við boltanum og sendi inn í markteig. Tahnai Annis náði þar að pota í boltann og í markið fór hann.
Þetta var sjötti leikurinn af 11 sem Þór/KA heldur markinu hreinu í sumar. Stigasöfnunin hefur gengið vel að undanförnu og liðið fengið tíu af síðustu 12 stigum með sigrum gegn Selfossi, Tindastóli og Keflavík og svo jafnteflinu ævintýralega á móti Stjörnunni.
Þór/KA hefur nú 19 stig eftir 11 umferðir, fjórum stigum minna en Breiðablik og Valur. Næsti leikur liðsins verður strax á sunnudag, 9. júlí, en þá mætast Þór/KA og ÍBV á Þórsvellinum.