Sigur í fyrsta leik í Kjarnafæðismótinu

Leikmenn, liðsstjórar og þjálfarar dagsins.
Leikmenn, liðsstjórar og þjálfarar dagsins.

 

Þór/KA mætti liði Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis í fyrstu umferð Kjarnafæðismótsins 2022 í Boganum í dag og sigraði, 4-2 með mörkum frá Unu Móeiði, Ísfold Marý, Agnesi Birtu og Sonju Björg.

Perry Mclachlan, annar þjálfara Þórs/KA, kvaðst aðspurður sjá margt jákvætt í leik liðsins. „Það má taka margt jákvætt út úr þessum leik, en það er enn langur vegur fram undan, margt sem vinna þarf að. Þetta er líka góð reynsla fyrir ungu leikmennina sem fengu mínútur í dag,“ sagði Perry í spjalli við heimasíðuritara eftir leikinn.

Öflug byrjun

Fyrsta mark Þórs/KA kom eftir aðeins rúmlega þriggja mínútna leik. Eftir að Þór/KA vann boltann af gestunum á þeirra vallarhelmingi átti Margrét Árnadóttir góða sendingu yfir til vinstri í teignum þar sem Una Móeiður Hlynsdóttir lagði boltann örugglega í markið, 1-0.

Annað markið kom einnig eftir að leikmenn Þórs/KA unnu boltann á vallarhelmingi gestanna. Agnes Birta Stefánsdóttir renndi þá boltanum á Ísfold Marý Sigtryggsdóttir og hún átti hnitmiðað skot fyrir utan teig, niðri og alveg út við stöng. Staðan orðin 2-0 eftir rúmar 11 mínútur.

Það leið þó ekki á löngu þar til FHL hafði minnkað muninn - aðeins þrjár mínútur frá öðru marki Þórs/KA. Þær unnu þá boltann rétt framan við miðju, voru þrjár á móti þremur, sem endaði með því að Freyja Karín Þorvarðardóttir vann baráttu við tvo varnarmenn Þórs/KA, komst á milli þeirra og svo framhjá Hörpu í markinu og renndi boltanum í markið.

Staðan eftir fyrri hálfleikinn var því 2-1.

Margar breytingar í seinni hálfleik

Bæði lið gerðu nokkrar breytingar í leikhléinu og áfram þegar leið á seinni hálfleikinn, þannig að margar úr hópnum hjá báðum liðum fengu að spreyta sig í dag.

Eftir rúmlega fimm mínútna leik í seinni hálfleik kom þriðja mark Þórs/KA. Unnur Stefánsdóttir var þá með boltann á hægri kantinum, fór framhjá varnarmanni og átti góða fyrirgjöf inn á miðjan teiginn. Þar var Agnes Birta Stefánsdóttir með höfuðið á réttum stað og skallaði boltann í markið, 3-1.

Aftur fengu gestirnir líflínu og minnkuðu muninn í eitt mark, 3-2, á 58. mínútu. Þær spiluðu þá út úr vörninni, síðan kom há sending upp miðjan völlinn, inn fyrir vörn Þórs/KA sem var nokkuð framarlega. Freyja Karín vann kapphlaupið um boltann, fór síðan framhjá Söru Mjöll í markinu og renndi boltanum í netið, 3-2.

Þessi líflína entist þó ekki nema í rúmar tvær mínútur því á 61. fékk Agnes Birta boltann á vallarhelmingi gestanna renndi honum áfram á Sonju Björg Sigurðardóttur sem átti glæsilegt skot fyrir utan teig og kom Þór/KA í 4-2.

Ungt lið og nokkrar frá vegna meiðsla

Þór/KA tefldi fram mjög ungu liði í þessum leik, en elsti leikmaður í hópnum í dag var Agnes Birta (1997) og af 16 leikmönnum sem tóku þátt í leiknum í dag voru fjórar fæddar fyrir 2000. Þær yngstu eru fæddar 2006, en tvær þeirra voru í byrjunarliðinu og þrjár voru varamenn. Ljóst er að breytingar verða á leikmannahópnum frá því í upphafi síðasta tímabils, nokkrir leikmenn farnir annað og væntanlega einhverjar sem koma í þeirra stað á næstu mánuðum.

Liðið í dag: Harpa Jóhannsdóttir (Sara Mjöll Jóhannsdóttir 46), Angela Mary Helgadóttir, Margrét Árnadóttir, Sonja Björg Sigurðardóttir (Amalía Árnadóttir 71), Unnur Stefánsdóttir, Una Móeiður Hlynsdóttir (Ólína Helga Sigþórsdóttir 75), Agnes Birta Stefánsdóttir, Hulda Karen Ingvarsdóttir, Iðunn Rán Gunnarsdóttir (Arna Kristinsdóttir 46), Hulda Björg Hannesdóttir (F) og Ísfold Marý Sigtryggsdóttir (Krista Dís Kristinsdóttir 46).

Leikskýrslan

Mótið - staða og úrslit leikja

Markaskorarar Þórs/KA í dag, frá vinstri: Sonja Björg Sigurðardóttir, Agnes Birta Stefánsdóttir, Una Móeiður Hlynsdóttir og Ísfold Marý Sigtryggsdóttir.