Karfan er tóm.
Lið Þórs/KA/Völsungs vann öruggan sigur á liði Aftureldingar í fyrsta leik sínum í B-deild Íslandsmótsins í 2. flokki í gær, 4-0.
Öll mörkin komu í fyrri hálfleik, þrjú þeirra eftir að sóknarmenn Þór/KA/Völsungs pressuðu eða unnu boltann á vallarhelmingi gestanna.
Fyrsta markið skoraði Tanía Sól Hjartardóttir á 11. mínútu eftir samvinnu við Sonju Björg Sigurðardóttur, þar sem þær unnu boltann eftir markspyrnu og Tanía skoraði eftir að markvörður Aftureldingar hafði varið fyrstu tilraun hennar.
Annað markið skoraði Una Móeiður Hlynsdóttir á 26. mínútu. Sonja Björg pressaði þá markvörð Aftureldingar eftir sendingu til baka og endaði það með því að Una Móeiður fékk boltann út í teiginn, átti skot sem markvörðurinn varði, en Una hirti frákastið og skoraði.
Þriðja markið skoraði Krista Dís Kristinsdóttir á 38. mínútu. Hildur Jana Hilmarsdóttir vann þá boltann eftir misheppnaða sendingu gestanna, sendi upp í hornið á Sonju Björg, sem fór laglega framhjá varnarmönnum meðfram endalínunni og sendi fyrir markið þar sem Krista Dís skoraði örugglega.
Sonja Björg skoraði síðan fjórða markið á 43. mínútu eftir að hafa átt stoðsendingu og þátt í fyrstu þremur mörkunum. Hún fékk þá stungusendingu inn fyrir vörnina frá Kristu Dís, lék inn á teiginn og renndi boltanum í fjærhornið.
Staðan orðin 4-0 eftir fyrri hálfleikinn og það urðu lokatölur því ekkert var skorað í seinni hálfleiknum.
Góð byrjun hjá stelpunum í 2. flokki og vonandi gott sumar fram undan. Liðið spilar í B-deild þar sem félagið dró lið 2. flokks úr keppni í fyrrasumar og tefldi einungis fram liði Hamranna í 2. deild í meistaraflokki.
Næsti leikur hjá Þór/KA/Völsungi í 2. flokki er áformaður sunnudaginn 15. maí kl. 15:30 í Boganum, gegn Stjörnunni/Álftanesi.
Leikskýrslan á vef KSÍ.
Staða, úrslit og leikjadagskrá á vef KSÍ.