Þór/KA tók toppsætið í riðli 1 í A-deild Lengjubikarsins með öruggum fimm marka sigri á Fylki í Árbænum í gær og tryggði sér sæti í undan úrslitum Lengjubikarkeppninnar.
Margrét Árnadóttir og Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir skoruðu með stuttu millibili snemma í fyrri hálfleik og komu Þór/KA í 2-0. Þannig var staðan í leikhléi. Sandra María Jessen bætti við þriðja markinu á 66. mínútu og Eva S. Dolina-Sokolowska því fjórða og sínu fyrsta marki í meistaraflokki á 81. mínútu, en hún hafði þá komið inn sem varamaður fimm mínútum áður. Leikurinn var svo nánast búinn þegar Margrét Árnadóttir skoraði sitt annað mark og fimmta mark liðsins með síðustu spyrnunni í viðbótartíma.
Þór/KA skaust upp í efsta sæti riðilsins með sigrinum, en lokaröð efstu liða ræðst þegar Þróttur og Valur mætast í kvöld kl. 19. Þór/KA er með 12 stig í efsta sætinu, Þróttur er með tíu stig og Valur níu.
Fylkir - Þór/KA 0-5 (0-2)
- 0-1 - Margrét Árnadóttir (12'). Stoðsending: Hulda Björg Hannesdóttir.
- 0-2 - Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir (15'). Stoðsending: Bríet Jóhannsdóttir.
- - -
- 0-3 - Sandra María Jessen (66'). Stoðsendin Hildur Anna Birgisdóttir.
- 0-4 - Eva S. Dolina-Sokolowska (81'). Stoðsending: Emelía Blöndal Ásgeirsdóttir.
- 0-5 - Margrét Árnadóttir (90+5'). Stoðsdending: Eva S. Dolina-Sokolowska.
- Leikskýrslan
- Staðan í riðlinum
Tölur og fróðleikur
- 1 - Eva Dolina-Sokolowska skoraði sitt fyrsta mark með meistaraflokki Þórs/KA aðeins fimm mínútum eftir að hún kom inn á sem varamaður. Þetta var hennar fimmti leikur með meistaraflokki. Hún kom tvisvar við sögu í Bestu deildinni í fyrrasumar og svo þrisvar í Lengjubikarnum núna í vetur.
- 6 - Margrét Árnadóttir hefur skorað flest mörk fyrir Þór/KA og flest allra í riðlinum, sex mörk. Þrjú þeirra skoraði hún gegn Tindastóli, tvö gegn Fylki og eitt gegn Fram.
- 19 - Þór/KA lauk keppni í riðli 1 með 19 mörk í plús, skoraði 22 mörk og fékk þrjú á sig. Þrisvar hélt liðið hreinu, gegn Tindastóli, Val og Fylki.
- 240 - Hulda Ósk Jónsdóttir spilaði sinn 240. leik fyrir Þór/KA í gær.
