Karfan er tóm.
Með 2-1 sigri á Selfossi í gær tryggði Þór/KA sér sæti í efri hluta Bestu deildarinnar þegar kemur að tvískiptingu hennar að loknum 18 umferðum.
Það voru aðeins 22 sekúndur liðnar af leiknum þegar Margrét Árnadóttir hafði náð forystunni fyrir Þór/KA, en hún fékk þá boltann eftir að Karen María Sigurgeirsdóttir hafði skotið í varnarmann. Selfyssingar jöfnuðu eftir rúman hálftíma, en nokkuð ljóst að það mark hefði ekki komist í gegnum nálarauga myndbandadómgæslu ef slík væri til staðar. Jafnt var eftir fyrri hálfleikinn, en Hulda Ósk Jónsdóttir náði forystunni fyrir Þór/KA á 65. mínútu eftir að hún fékk sendingu fram vinstra megin frá Agnesi Birtu Stefánsdóttur. Þrátt fyrir fjölmörg dauðafæri okkar liðs í leiknum urðu mörkin ekki fleiri.
Með sigrinum er Þór/KA komið með 25 stig, eins og Þróttur og FH, en með lakari markamun. Stjarnan fór upp í 3. sætið, aðeins stigi á undan þessum liðum. Það ræðst því ekki fyrr en í lokaumferðinni sunnudaginn 27. ágúst hver röð liðanna verður í 18 leikja deildinni fyrir tvískiptingu, en leikjaniðurröðun í framhaldinu ræðast af röð liðanna í deildinni. Þrjú efstu liðin fá þrjá heimaleiki, en liðin í 4.-6. sæti fá tvo.
Sigurinn á Selfossi í gær var sá fimmti hjá Þór/KA á útivöllum í deildinni í sumar. Aðeins Valur er með betri árangur á útivöllum í deildinni hingað til. Þór/KA hefur unnið fimm leiki af átta á útivöllum og áhugavert að velta fyrir sér að fjórir af þessum sigrum koma á náttúrulegu grasi, í Vestmannaeyjum, Keflavík, Hafnarfirði og núna á Selfossi.
Staðan að loknum 17 umferðum.
Lokaumferð deildarinnar fyrir tvískiptingu fer fram sunnudaginn 27. ágúst og hefjast leikirnir kl. 14. Þór/KA fer á Krókinn og mætir þar liði Tindastóls.