Sex leikmenn undirrita nýja samninga

Karen María Sigurgeirsdóttir, Emelía Ósk Krüger, Agnes Birta Stefánsdóttir, Amalía Árnadóttir, Bríet…
Karen María Sigurgeirsdóttir, Emelía Ósk Krüger, Agnes Birta Stefánsdóttir, Amalía Árnadóttir, Bríet Jóhannsdóttir og Margrét Árnadóttir.

Sex leikmenn meistaraflokks hafa endurnýjað samninga sína við Þór/KA til næstu tveggja ára og von á fleiri undirskriftum á næstu dögum. 

Agnes Birta Stefánsdóttir, Amalía Árnadóttir, Bríet Jóhannsdóttir, Emelía Ósk Krüger, Karen María Sigurgeirsdóttir og Margrét Árnadóttir hafa allar skrifað undir nýja samninga við félagið til næstu tveggja ára. Allar koma þær úr röðum Akureyrarfélaganna og eru hluti af þeim stóra hópi sem Þór/KA hefur á að skipa af heimaöldum leikmönnum. Segja má að þrjár af þessum sex hafi verið lykilleikmenn með liðinu í sumar og undanfarin ár og þrjár þær yngri hafa komið sterkar inn í liðið í sumar og fyrrasumar, misjafnlega mikið og oft, en má gera ráð fyrir að verði lykilleikmenn á komandi árum.

Fjársjóður innan félagsins

Dóra Sif Sigtryggsdóttir, formaður stjórnar Þórs/KA, fagnar því að hafa þessar knattspyrnukonur áfram í röðum félagsins. „Félagið hefur á að skipa fjölmörgum sterkum heimastelpum sem halda tryggð við Þór/KA og leggja sig allar fram fyrir félagið, innan og utan vallar. Það er í raun mikið fagnaðarefni fyrir Þór/KA að fá á hverju ári margar efnilegar knattspyrnukonur úr yngri flokkunum inn í meistaraflokkinn. Þetta er fjársjóður sem við fögnum því að geta gengið í og viðhaldið þannig sterku knattspyrnuliði á landsvísu, og raunar mörgum sterkum knattspyrnuliðum þegar liðin okkar í 2. og 3. flokki eru talin með,“ segir Dóra Sif.

Lykilforsenda á vegferðinni

Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA, kveðst ánægður með að halda bæði sterkum og reyndari leikmönnum sem og þeim ungu og efnilegu sem nú hafa skrifað undir nýja samninga hjá félaginu. „Það er mikil viðurkenning fyrir okkur í Þór/KA að sterkir, reyndir leikmenn sem og ungir og bráðefnilegir leikmenn skrifi undir samning við félagið. Þetta er ekki bara lykilforsenda fyrir þá vegferð sem við erum á heldur er þetta staðfesting á því góða starfi sem allir í félaginu eru að vinna. Ég er himinlifandi með að núverandi hópur mun haldast svo til óbreyttur milli tímabila. Það er bara tilhlökkun að byrja aftur eftir pásuna,“ segir Jóhann Kristinn.

Agnes Birta Stefánsdóttir (1997) er miðvörður og á að baki samtals 109 leiki og þrjú mörk í meistaraflokki, þar af 58 leiki og tvö mörk í efstu deild. Leikir Agnesar Birtu fyrir Þór/KA eru samtals 87, en hún á einnig að baki 12 leiki með Tindastóli og tíu leiki með Hömrunum, í næstefstu deild með báðum félögum. Agnes Birta á einnig að baki leiki í bandaríska háskólaboltanum, en hún var við nám vestra fyrir nokkrum árum.

Margrét Árnadóttir (1999) er miðju- og sóknarmaður og hefur spilað allra leikmanna mest fyrir Þór/KA á þessu ári, hefur byrjað alla leiki og spilað næstum allar mínútur í öllum leikjunum. Margrét hefur leikið 174 leiki í meistaraflokki með Þór/KA og skorað 43 mörk, þar af 122 leiki og 24 mörk í efstu deild. Þá á hún einnig að baki nokkra leiki með Parma Calcio 1913 í A-deildinni á Ítalíu fyrri hluta árs 2023.

Karen María Sigurgeirsdóttir (2001) er miðju- og sóknarmaður og á að baki 193 leiki í meistaraflokki og 42 mörk. Þar af eru 118 leikir í efstu deild og 23 mörk. Leikirnir fyrir Þór/KA eru samtals 130, en Karen María á einnig að baki 15 leiki og 11 mörk með Hömrunum og 36 leiki og tvö mörk með Breiðabliki. 

Amalía Árnadóttir (2006) spilar í framlínunni og á að baki 74 leiki í meistaraflokki og sjö mörk, þar af 37 leiki í efstu deild. Af leikjunum 74 eru tíu með Völsungi á lánssamningi vor og sumar 2022 þar sem hún skoraði tvö mörk.

Bríet Jóhannsdóttir (2006) hefur að mestu spilað sem kantmaður en einnig komið sterk inn í stöðu bakvarðar þegar á þarf að halda. Hún hefur spilað 46 meistaraflokksleiki fyrir Þór/KA og skorað fimm mörk, þar af eru 32 leikir og tvö mörk í efstu deild. 

Emelía Ósk Krüger (2006) hefur spilað 36 leiki í meistaraflokki og skorað fjögur mörk. Þar af er 21 leikur og eitt mark í efstu deild. Emelía Ósk er miðjumaður og er á sínu öðru ári með meistaraflokki Þórs/KA.

Margrét Árnadóttir, Dóra Sif Sigtryggsdóttir og Amalía Árnadóttir.

Agnes Birta Stefánsdóttir, Dóra Sif Sigtryggsdóttir og Karen María Sigurgeirsdóttir.

Emelía Ósk Krüger, Dóra Sif Sigtryggsdóttir og Bríet Jóhannsdóttir.