Karfan er tóm.
Þór/KA hefur átt marga fulltrúa í landsliðsverkefnum að undanförnu, eins og oftast áður.
Hér á vefnum okkar hefur ekki alltaf gefist tími til að segja frá öllum verkefnum, úrslitum og þátttöku í leikjum eða þegar valið er í æfingahópa og því kannski tímabært að fara í smá upprifjun, skoða hvaða fulltrúa við höfum átt í A-landsliðinu og yngri landsliðum Íslands í haust og vetur, ásamt því að fara um leið yfir það sem fram undan er.
Það hefur líklega ekki farið framhjá stuðningsfólki okkar að fyrirliðinn okkar, Sandra María Jessen, hefur verið fastakona í byrjunaliði Íslands í undanförnum verkefnum, ef frá eru taldir æfingaleikir í júlí þegar hún var frá keppni eftir handleggsbrot.
Sandra María Jessen á æfingu með A-landsliðinu. Myndin er af Facebook-síðu KSÍ.
A-landsliðið hefur staðið í ströngu í nýrri Þjóðadeild UEFA núna í haust. Liðið hefur spilað fjóra leiki og hefur Sandra María verið í byrjunarliðinu í þeim öllum. Hún spilaði allan leikinn í 1-0 sigri gegn Wales megnið af leikjunum gegn Dönum heima og Þjóðverjum heima og að heiman. Törninni er ekki lokið því íslenska liðið leikur lokaleiki sína í Þjóðadeildinni í byrjun desember, útileiki gegn Wales 1. desember og Danmörku 5. desember. Við gerum auðvitað fastlega ráð fyrir að Sandra María verði með í þeim verkefnum.
Þjóðadeild UEFA - riðill Íslands (ksi.is)
Í september spilaði U23 landslið Íslands tvo æfingaleiki við Marokkó og fóru leikirnir fram í Rabat í Marokkó. Í þeim hópi voru Hulda Björg Hannesdóttir, Jakobína Hjörvarsdóttir og Karen María Sigurgeirsdóttir úr okkar röðum. Auk þeirra var svo fyrrverandi leikmaður Þórs/KA, María Catharina Ólafsdóttir Gros, í þeim hópi, en hún er í atvinnumennsku hjá Fortuna Sittard í Hollandi.
Fulltrúar Akureyrar með U23 landsliðinu í Marokkó í september: Hulda Björg Hannesdóttir, Jakobína Hjörvarsdóttir, Karen María Sigurgeirsdóttir og María Catharina Ólafsdóttir Gros.
Þrjár úr röðum Þórs/KA hafa verið valdar í æfingahóp sem kemur saman síðar í vikunni. Æfingarnar eru liður í undirbúningi fyrir leik U20 landsliðsins gegn Austurríki í umspilsleik um það hvor þjóðin fer á HM U20 sem fram fer í Kolumbíu í ágúst 2024.
Margrét Magnúsdóttir, landsliðsþjálfari U19, hefur valið 25 leikmenn í æfingahóp sem kemur saman 17.-19. nóvember fyrir þetta verkefni. Endanlegur hópur fyrir umspilsleikinn verður svo valinn í framhaldinu og kemur aftur saman til æfinga áður en haldið er utan til Barcelona 2. desember. Leikurinn fer fram í Salou 4. desember.
Það eru þær Iðunn Rán Gunnarsdóttir, Ísfold Marý Sigtryggsdóttir og Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir sem eru fulltrúar okkar í æfingahópnum og vonandi áfram í lokahóp fyrir þetta verkefni.
Fjórar frá Þór/KA voru í hópi U19 landsliðsins sem tók þátt í undanriðli fyrir EM 2024. Spilað var í Albaníu í lok október og tryggði íslenska liðið sér sæti í annarri umferð undankeppninnar sem gera má ráð fyrir að fari fram í lok mars.
Það voru þær Amalía Árnadóttir, Iðunn Rán Gunanrsdóttir, Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir og Steingerður Snorradóttir sem voru okkar fulltrúar með liðinu í Albaníu í október og vonandi eigum við jafnvel enn fleiri fulltrúa í hópnum í komandi verkefnum.
Stelpurnar okkar með U19 í haust: Steingerður Snorradóttir, Amalía Árnadóttir, Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir og Iðunn Rán Gunnarsdóttir.
Þær Amalía Árnadóttir og Angela Mary Helgadóttir hafa verið valdar í hóp sem tekur þátt í æfingum og leikjum gegn Svíum í lok mánaðarins. Hópurinn kemur saman til æfinga helgina 25.-26. Nóvember og þriðjudaginn 28. nóvember. Liðið mætir Svíum í tveimur æfingaleikjum sem fram fara 29. nóvember og 1. desember í Miðgarði í Garðabæ.
Þór/KA átti ekki fulltrúa í U17 landsliðinu sem hélt til Póllands í október og tók þátt í undankeppni fyrir EM. Þar var þó ein sem áður var í okkar röðum, Karlotta Björk Andradóttir, en hún flutti suður um mitt sumar og skipti þá í Álftanes.
Þær Emelía Blöndal Ásgeirsdóttir og Ísey Ragnarsdóttir tóku þátt í úrtaksæfingum U16 landsliðsins fyrr í mánuðinum. Þórður Þórðarson er landsliðsþjálfari U16.
Þrjár úr 3. flokki Þórs/KA eru á leið til Portúgals síðar í vikunni með U15 landsliði Íslands.
Það eru þær Aníta Ingvarsdóttir, Bríet Kolbrún Hinriksdóttir og Ragnheiður Sara Steindórsdóttir sem hafa verið valdar í 20 manna hóp sem tekur þátt í UEFA Development Tournament sem fram fer í Lissabon dagana 17.-23. nóvember. Liðið kemur saman til tveggja æfinga hér á landi áður en haldið er utan.
Magnús Örn Helgason er þjálfari U15 landsliðsins og hafa æfingahópar sem hann hefur valið komið saman í ágúst, september og október. Tvær enn frá Þór/KA voru í æfingahópi fyrr í haust, þær Karen Hulda Hrafnsdóttir og Móeiður Alma Gísladóttir.
Nú hafa 20 stelpur verið valdar til að taka þátt fyrir Íslands hönd í þessu UEFA móti, þar af áðurnefndar þrjár frá Þór/KA.
Við munum fylgjast með þessu móti og koma á framfæri upplýsingum ef um beinar útsendingar verður að ræða frá leikjum Íslands.