Sautján frá Þór/KA í landsliðsverkefnum í haust

Þór/KA hefur átt marga fulltrúa í landsliðsverkefnum að undanförnu, eins og oftast áður.

Hér á vefnum okkar hefur ekki alltaf gefist tími til að segja frá öllum verkefnum, úrslitum og þátttöku í leikjum eða þegar valið er í æfingahópa og því kannski tímabært að fara í smá upprifjun, skoða hvaða fulltrúa við höfum átt í A-landsliðinu og yngri landsliðum Íslands í haust og vetur, ásamt því að fara um leið yfir það sem fram undan er.

Sandra María með A-landsliðinu

Það hefur líklega ekki farið framhjá stuðningsfólki okkar að fyrirliðinn okkar, Sandra María Jessen, hefur verið fastakona í byrjunaliði Íslands í undanförnum verkefnum, ef frá eru taldir æfingaleikir í júlí þegar hún var frá keppni eftir handleggsbrot.


Sandra María Jessen á æfingu með A-landsliðinu. Myndin er af Facebook-síðu KSÍ.

A-landsliðið hefur staðið í ströngu í nýrri Þjóðadeild UEFA núna í haust. Liðið hefur spilað fjóra leiki og hefur Sandra María verið í byrjunarliðinu í þeim öllum. Hún spilaði allan leikinn í 1-0 sigri gegn Wales megnið af leikjunum gegn Dönum heima og Þjóðverjum heima og að heiman. Törninni er ekki lokið því íslenska liðið leikur lokaleiki sína í Þjóðadeildinni í byrjun desember, útileiki gegn Wales 1. desember og Danmörku 5. desember. Við gerum auðvitað fastlega ráð fyrir að Sandra María verði með í þeim verkefnum.

Þjóðadeild UEFA - riðill Íslands (ksi.is)

Fjórar með U23 í Marokkó í september

Í september spilaði U23 landslið Íslands tvo æfingaleiki við Marokkó og fóru leikirnir fram í Rabat í Marokkó. Í þeim hópi voru Hulda Björg Hannesdóttir, Jakobína Hjörvarsdóttir og Karen María Sigurgeirsdóttir úr okkar röðum. Auk þeirra var svo fyrrverandi leikmaður Þórs/KA, María Catharina Ólafsdóttir Gros, í þeim hópi, en hún er í atvinnumennsku hjá Fortuna Sittard í Hollandi.


Fulltrúar Akureyrar með U23 landsliðinu í Marokkó í september: Hulda Björg Hannesdóttir, Jakobína Hjörvarsdóttir, Karen María Sigurgeirsdóttir og María Catharina Ólafsdóttir Gros.

Æfingahópur fyrir umspilsleik U20 landsliðsins

Þrjár úr röðum Þórs/KA hafa verið valdar í æfingahóp sem kemur saman síðar í vikunni. Æfingarnar eru liður í undirbúningi fyrir leik U20 landsliðsins gegn Austurríki í umspilsleik um það hvor þjóðin fer á HM U20 sem fram fer í Kolumbíu í ágúst 2024.

Margrét Magnúsdóttir, landsliðsþjálfari U19, hefur valið 25 leikmenn í æfingahóp sem kemur saman 17.-19. nóvember fyrir þetta verkefni. Endanlegur hópur fyrir umspilsleikinn verður svo valinn í framhaldinu og kemur aftur saman til æfinga áður en haldið er utan til Barcelona 2. desember. Leikurinn fer fram í Salou 4. desember.

Það eru þær Iðunn Rán Gunnarsdóttir, Ísfold Marý Sigtryggsdóttir og Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir sem eru fulltrúar okkar í æfingahópnum og vonandi áfram í lokahóp fyrir þetta verkefni.

U19 áfram í milliriðil - fjórar frá Þór/KA

Fjórar frá Þór/KA voru í hópi U19 landsliðsins sem tók þátt í undanriðli fyrir EM 2024. Spilað var í Albaníu í lok október og tryggði íslenska liðið sér sæti í annarri umferð undankeppninnar sem gera má ráð fyrir að fari fram í lok mars.

Það voru þær Amalía Árnadóttir, Iðunn Rán Gunanrsdóttir, Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir og Steingerður Snorradóttir sem voru okkar fulltrúar með liðinu í Albaníu í október og vonandi eigum við jafnvel enn fleiri fulltrúa í hópnum í komandi verkefnum.

Nánar á vef KSÍ.

Stelpurnar okkar með U19 í haust: Steingerður Snorradóttir, Amalía Árnadóttir, Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir og Iðunn Rán Gunnarsdóttir.

Tvær valdar í æfingaleiki með U18

Þær Amalía Árnadóttir og Angela Mary Helgadóttir hafa verið valdar í hóp sem tekur þátt í æfingum og leikjum gegn Svíum í lok mánaðarins. Hópurinn kemur saman til æfinga helgina 25.-26. Nóvember og þriðjudaginn 28. nóvember. Liðið mætir Svíum í tveimur æfingaleikjum sem fram fara 29. nóvember og 1. desember í Miðgarði í Garðabæ.

Ein með U17

Þór/KA átti ekki fulltrúa í U17 landsliðinu sem hélt til Póllands í október og tók þátt í undankeppni fyrir EM. Þar var þó ein sem áður var í okkar röðum, Karlotta Björk Andradóttir, en hún flutti suður um mitt sumar og skipti þá í Álftanes.

Nánar á vef KSÍ.

Tvær á úrtaksæfingum með U16

Þær Emelía Blöndal Ásgeirsdóttir og Ísey Ragnarsdóttir tóku þátt í úrtaksæfingum U16 landsliðsins fyrr í mánuðinum. Þórður Þórðarson er landsliðsþjálfari U16.

Nánar á vef KSÍ.

Þrjár frá Þór/KA með U15 til Portúgals

Þrjár úr 3. flokki Þórs/KA eru á leið til Portúgals síðar í vikunni með U15 landsliði Íslands.

Það eru þær Aníta Ingvarsdóttir, Bríet Kolbrún Hinriksdóttir og Ragnheiður Sara Steindórsdóttir sem hafa verið valdar í 20 manna hóp sem tekur þátt í UEFA Development Tournament sem fram fer í Lissabon dagana 17.-23. nóvember. Liðið kemur saman til tveggja æfinga hér á landi áður en haldið er utan.

Magnús Örn Helgason er þjálfari U15 landsliðsins og hafa æfingahópar sem hann hefur valið komið saman í ágúst, september og október. Tvær enn frá Þór/KA voru í æfingahópi fyrr í haust, þær Karen Hulda Hrafnsdóttir og Móeiður Alma Gísladóttir.

Nú hafa 20 stelpur verið valdar til að taka þátt fyrir Íslands hönd í þessu UEFA móti, þar af áðurnefndar þrjár frá Þór/KA.

Við munum fylgjast með þessu móti og koma á framfæri upplýsingum ef um beinar útsendingar verður að ræða frá leikjum Íslands.

Nánar á vef KSÍ.