Karfan er tóm.
Þór/KA vann sannfærandi 3-0 sigur á Selfyssingum í Bestu deildinni í dag. Una Móeiður Hlynsdóttir skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild.
Þór/KA er í 4. sæti deildarinnar eftir leikinn í dag með 12 stig eftir átta leiki, en þetta var eini leikurinn í deildinni í dag, fjórir leikir í deildinni á morgun. Annaðhvort Stjarnan eða FH gætu farið aftur upp fyrir Þór/KA, en þessi lið mætast á morgun.
Þór/KA spilaði undan strekkingsvindi í fyrri hálfleik og fékk fjölmörg góð marktækifæri. Mörkin urðu þó aðeins tvö í fyrri hálfleiknum. Það fyrra skoraði Una Móeiður Hlynsdóttir á 10. mínútu. Melissa Lowder kom þá langt út úr markinu og sparkaði fram völlinn, varnarmaður Selfoss skallaði boltann í átt að eigin marki og Una Móeiður var fyrst að átta sig, brunaði í átt að markinu og lagði boltann undir markvörð Selfoss. Una Móeiður hafði aðeins komið við sögu í tveimur leikjum í deildinni í sumar, en hún meiddist illa í leik gegn Selfossi í Boganum 19. mars og var í dag í fyrsta skipti í byrjunarliði eftir að hún kom til baka úr meiðslunum, jafnframt í fyrsta skipti í byrjunarliði í leik í Bestu deildinni enda þetta aðeins hennar þriðji leikur í efstu deild og skoraði þar með sitt fyrsta mark í efstu deild.
Annað markið kom aðeins nokkrum mínútum eftir það fyrsta. Dominique Randle átti þá fyrirgjöf eftir þunga sók leikmanna Þórs/KA, varnarmaður Selfyssinga skallaði boltann áfram og beint fyrir fætur Söndru Maríu Jessen. Hún tók hann viðstöðulaust og þrumaði í markið. Sandra María þar með aftur orðin markahæst í deildinni með fimm mörk.
Tahnai Annis bætti svo þriðja markinu við eftir rúmlega tíu mínútna leik í seinni hálfleik. Hún skoraði þá með skalla eftir hornspyrnu frá Jakobínu Hjörvarsdóttur.
Þór/KA var eiginlega allan tímann með leikinn í höndum sér. Stelpurnar mættu ákveðnar til leiks, voru áræðnar og árásargjarnar, unnu boltann oft með góðri pressu og sköðppuðu fjölmörg færi. Áhugavert að í 3-0 sigri er mögulega helst hægt að segja að færanýtingin mætti vera betri því Þór/KA hefði hæglega getað verið með meiri forystu eftir fyrri hálfleikinn.
Mörkin hefðu reyndar átt að vera þrjú því ekki verður betur séð en að löglegt mark hafi verið dæmt af með rangstöðudómi.
Með sigrinum lauk alltof langri taphrinu og alltof löngu tímabili án marka. Þór/KA hafði tapað þremur leikjum í röð í deildinni og einum í bikar og ekki skorað mark síðan á 84. mínútu í leiknum gegn Þrótti 22. maí, eða í tæpar 280 mínútur. Leikurinn í dag er hins vegar fjórði leikurinn þar sem liðið heldur hreinu af átta leikjum í deildinni.
Næsti leikur liðsins verður gegn Tindastóli 21. júní.