Karfan er tóm.
Sandra Sigurðardóttir, landsliðsmarkvörður og markvörður Vals í knattspyrnu, er ein af 11 einstaklingum sem kynntir hafa verið og urðu efst í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna á íþróttamanni ársins, en kjörinu verður lýst í Hörpu og í beinni útesndingu sjónvarpsins í kvöld. Sandra var leikmaður Þórs/KA/KS á árunum 2001-2004.
Fyrsti skráði leikur hennar með Þór/KA/KS var í Deildabikarkeppninni 29. apríl 2001, en hún var þá á 15. ári. Hún spilaði síðan fyrsta leik sinn í efstu deild 9. júní sama ár og á að baki samtals 44 leiki með Þór/KA/KS í efstu deild.
Sandra var hjá Þór/KA/KS í fjögur tímabil, spilaði einn leik með meistaraflokki í efstu deild 2001, 13 leiki árið 2002, 12 leiki árið 2003 og 18 leiki árið 2004. Auk þess spilaði hún samtals 13 leiki með 2. flokki Þórs/KA/KS á þessum árum.
Sandra fór frá Þór/KA/KS til Stjörnunnar eftir tímabilið 2004. Hún hefur síðan þá leikið með Stjörnunni, í Svíþjóð og með Val. Hún er samtals komin með yfir 500 leiki í meistaraflokki, auk 48 landsleikja. Sandra var aðalmarkvörður íslenska landsliðsins á EM í sumar og hefur raunar verið í þeirri stöðu síðan Guðbjörg Gunnarsdóttir hætti.
Sandra er fædd 1986, en tilkynnt var rétt fyrir jól að hún hefði endurnýjað samning sinn við Val og framlengt til næstu tveggja ára.