Karfan er tóm.
Sandra María Jessen er tilnefnd af stjórn Þórs/KA í kjörinu á íþróttakonu Þórs fyrir árið 2023. Hún er ein af sex konum sem tilnefndar eru af deildum félagsins.
Kjöri á íþróttakonu Þórs verður lýst í hófði í Hamri laugardaginn 6. janúar kl. 14.
Í kynningartexta á vef Þórs segir um Söndru Maríu:
Sandra María tók við fyrirliðahlutverkinu fyrir tímabilið 2023 og var lykilmanneskja í öflugu liði Þórs/KA sem endaði í 5. sæti Bestu deildarinnar í haust, auk þess að hafa unnið Kjarnafæðismótið á æfingatímabilinu og komist í úrslitaleik Lengjubikarsins. Liðið vann öll lið sem það mætti á tímabilinu að minnsta kosti einu sinni, náði frábærum árangri í útileikjum þrátt fyrir langar bílferðir og endaði í efri hluta Bestu deildarinnar.
Hún vann sér fast sæti í landsliðinu aftur eftir að hafa verið í barnsburðarleyfi og hefur verið í byrjunarliði Íslands í næstum öllum leikjum liðsins í Þjóðadeildinni í ár þrátt fyrir að hafa orðið fyrir meiðslum um mitt sumar og misst af æfingaleikjum liðsins í júlí. Sandra María var markahæst leikmanna Þórs/KA í Bestu deildinni annað árið í röð. Hún skoraði átta mörk í 19 leikjum í Bestu deildinni og auk þess 12 mörk í sjö leikjum í A-deild Lengjubikarsins og tíu mörk í fjórum leikjum í Kjarnafæðismótinu, æfingamóti í janúar.
Sandra María lék á árinu sinn 200. meistaraflokksleik fyrir Þór/KA (KSÍ leikir og Evrópukeppni) og nokkuð er síðan hún jafnaði og bætti félagsmet hjá Þór/KA í skoruðum mörkum í efstu deild og bætir það met með hverju marki sem hún skorar. Að meðtöldum leikjum í efstu deildum Tékklands og Þýskalands náði Sandra María þeim áfanga í haust að spila sinn 200. leik í efstu deild, 153 á Íslandi og 48 erlendis.
Sandra María er mikilvægur liðsmaður í ungu en öflugu liði Þórs/KA, fyrirmynd fyrir yngri iðkendur í ástundun, hugarfari, vinnuframlagi og baráttu.