Sandra María Jessen er íþróttakona Þórs 2022

Ragnar Sverrisson, gefandi verðlaunagripsins, og Sandra María Jessen, íþróttakona Þórs 2022. Myndir:…
Ragnar Sverrisson, gefandi verðlaunagripsins, og Sandra María Jessen, íþróttakona Þórs 2022. Myndir: Skapti Hallgrímsson/akureyri.net.

Kjöri á íþróttafólki Þórs 2022 var lýst á samkomunni Við áramót sem fram fór í Hamri síðdegis. Okkar eigin Sandra María Jessen var valin íþróttakona Þórs 2022.

Þór/KA tilnefndi einn leikmann hjá hvoru félagi út frá skráningu leikmanna í gagnagrunni KSÍ og eru þær tilnefndar í kjörinu sem íþróttakona Þórs annars vegar og íþróttakona K.A. hins vegar, Sandra María hjá Þór og Margrét Árnadóttir hjá K.A.

Þær Margrét og Sandra María eru báðar verðugir fulltrúar félagsins okkar í kjöri á íþróttakonum Þórs og K.A., en það íþróttafólk sem verður fyrir valinu hjá félögunum er síðan tilnefnt af þeim þegar kemur að kjöri ÍBA á íþróttafólki Akureyrar síðar í mánuðinum. Kjör á íþróttakonu K.A. verður opinberað á 95 ára afmælishátíð félagsins 8. janúar, en kjöri íþróttafólks Akureyrar verður lýst 24. janúar. 

Margrét Árnadóttir var í haust verðlaunuð af þjálfurum Þórs/KA sem besti leikmaður tímabilsins og er hún tilnefnd af Þór/KA í kjöri íþróttakonu K.A.

Margrét hefur lagt mikið á sig til að bæta sig sem knattspyrnukonu og hefur vaxið sem leikmaður undanfarið ár með meiri ábyrgð innan liðsins. Í mjög ungu liði Þórs/KA er hún orðin ein af eldri leikmönnum og hefur því tekið á sig meiri ábyrgð innan og utan vallar, er m.a. ein af þremur fyrirliðum hópsins.

Margrét mætir alltaf til leiks af fullum krafti og gefur sig alla í verkefnið hverju sinni. Hún er útsjónarsöm sem miðju- og sóknarleikmaður, hefur í senn gott auga fyrir samspili, og skapar þannig færi fyrir samherjana, og er jafnframt öflugur markaskorari, eins og hún hefur sýnt og sannað.

Margrét spilaði 24 leiki með Þór/KA á árinu í Bestu deildinni, Mjólkurbikarnum og Lengjubikarnum og skoraði í þeim leikjum níu mörk. Auk þess spilaði hún fimm leiki með Þór/KA í æfingamótum (Kjarnafæðismótið og Faxaflóamótið) og skoraði í þeim leikjum fjögur mörk.

Íþróttakona Þórs 2022: Sandra María Jessen

Sandra María Jessen var tilnefnd af stjórn Þórs/KA fyrir kjörið á íþróttakonu Þórs.

Sandra María hefur lagt gríðarlega vinnu í að koma sér í fyrra form eftir barnsburð. Hún er einn af lykilleikmönnum Þórs/KA og setur sér skýr og háleit markmið. Hún stefnir á að koma til baka í A-landslið Íslands og var nú í haust valin í æfingahóp liðsins. Sandra mætir ávallt einbeitt til leiks og gerir allt sitt af fullum krafti.

Hún spilaði alla leiki Þórs/KA í sumar og var markahæst í liðinu með átta mörk í, aðeins þremur mörkum frá markahæsta leikmanni sumarsins í Bestu deild kvenna.

Sandra María bætti félagsmet Rakelar Hönnudóttur þegar hún skoraði 75. mark sitt í efstu deild í leik í maí og hélt áfram að bæta það út tímabilið og endaði í 81 marki í efstu deild þegar upp var staðið í haust, en hún náði jafnframt þeim áfanga í haust að skora 100. mark sitt fyrir Þór/KA þegar önnur mót á vegum KSÍ og leikir í Evrópukeppni eru talin með.