Karfan er tóm.
Þór/KA hefur samið við Söndru Maríu Jessen (1995) um að leika með liðinu næstu tvö tímabil. Sandra María kemur til okkar frá Bayer 04 Leverkusen þar sem hún hefur verið frá janúar 2019.
Sandra María er klárlega mikill fengur fyrir Þór/KA, en eins og stuðningsfólk okkar veit er hún öflugur leikmaður, markaskorari og kemur með mikla reynslu inn í ungan leikmannahóp okkar, bæði úr deildinni hér heima, með landsliðinu og úr atvinnumennskunni erlendis.
Hún á að baki 163 meistaraflokksleiki með Þór/KA þar sem hún skoraði 89 mörk, þar af 73 í efstu deild. Aðeins Rakel Hönnudóttir hefur skorað fleiri mörk fyrir Þór/KA í efstu deild, 74, þannig að vonandi fáum við að sjá Söndru Maríu bæta það met í sumar. Sandra María hefur jafnframt, ásamt Örnu Sif Ásgrímsdóttur, leikið flesta Evrópuleiki fyrir félagið, en báðar hafa spilað átta Evrópuleiki.
Sandra María verður 27 ára núna í janúar. Hún kom fyrst við sögu með meistaraflokki 2011, þá 15 ára. Eftir langan og farsælan feril með Þór/KA, tvo Íslandsmeistaratitla og nokkurra mánaða lánstíma hjá Bayer 04 Leverkusen 2016 og Slavia Prag 2018, hélt Sandra María utan til Þýskalands í byrjun árs 2019 þar sem hún gerði atvinnumannasamning við Leverkusen.
Leikirnir með Leverkusen eru samtals orðnir 42, fyrst átta á lánstímanum 2016, átta leikir vorið 2019, 18 leikir tímabilið 2019-20 og átta leikir tímabilið 2020-21. Á lánstímanum hjá Slavia Prag 2018 spilaði hún sex leiki. Hún fór hins vegar í barnsburðarleyfi áður en samningur hennar við Leverkusen rann út og spilaði ekkert á árinu 2021.
Breyttir fjölskylduhagir eiga ásamt fleiru þátt í að hún ákveður að snúa aftur á heimaslóðir og spila með Þór/KA. Aðspurð um ástæður þess að hún ákvað að koma heim sagði Sandra María að núna þegar hún er komin með fjölskyldu sé enn mikilvægara að velja umhverfið vel.
„Hér á Akureyri er ekki bara frábært fótboltalið, heldur líka gott bakland fyrir Ellu sem og okkur öll. Hér veit ég hvernig Þór/KA og mín fjölskylda munu styðja mig,“ segir Sandra María. En hún horfir einnig til þeirra gæða sem til staðar eru innan félagsins knattspyrnulega séð: „Þar að auki eru ekkert smá spennandi tímar fram undan hjá Þór/KA, endalaust mikið af efnilegum stelpum að koma upp og mikið hungur í liðinu. Það er virkilega spennandi að vinna með þessum hóp.“
En hvað sér hún fram undan með Þór/KA: „Fólk getur endalaust talað um að við séum með ungt lið og því gert minni kröfur á okkur. Það gerum við aftur á móti ekki sjálfar. Þjálfarateymið og leikmannahópurinn vita hvaða gæði eru til staðar og við erum með stór markmið. Við þurfum til að byrja með að leggja áherslu á að móta okkar lið og leikstíl, en ekki síður að hafa gaman og reyna að fá eins ikið út úr hverjum leikmanni eins og hægt er,“ segir Sandra María Jessen og bætir við: „Næstu ár eru virkilega spennandi.“
Sandra María spilaði ávallt í framlínunni með Þór/KA, en hefur að hluta verið aftar á vellinum með þýska liðinu, bæði á miðju og í stöðu vinstri bakvarðar.
Samningur Söndru Maríu við Leverkusen er runninn út og nú hefur hún nú ákveðið að framhald ferilsins, að minnsta kosti næstu tvö tímabil, verði á hennar gömlu heimaslóðum með Þór/KA.
Hér má sjá tölfræðiupplýsingar Söndru Maríu á vef KSÍ.
Stjórn Þórs/KA fagnar heimkomu Söndru Maríu og býður hana velkomna aftur.
Sandra María Jessen og Saga Líf Sigurðardóttir við undirritun samninga, ásamt þjálfurunum Jóni Stefáni Jónssyni og Perry Mclachlan.
Sandra María verður númer 10 þegar hún snýr aftur til okkar, en hér er hún ásamt Perry Mclachlan þjálfara.
Jóhanna Jessen, móðir Söndru Maríu og fyrrum stjórnarkona í Þór/KA um árabil, Saga Líf Sigurðardóttir og Sandra María Jessen.
Sandra María Jessen og Tom Küster, unnusti hennar og barnsfaðir, ásamt dótturinni sem fæddist í september síðastliðnum.