Karfan er tóm.
Sandra María Jessen hefur samið við stjórn Þórs/KA um að vera áfram hjá félaginu næstu tvö árin.
Það er mikið fagnaðarefni fyrir félagið að halda þessum öfluga leikmanni í okkar röðum enda hefur varla farið framhjá þeim sem fylgjast með fjölmiðlum að hún hefur verið eftirsótt meðal annarra félaga hér á landi og erlendis og þarf ekki að koma á óvart.
Sandra María er ánægð með þessa niðurstöðu og spennt fyrir framtíðinni með Þór/KA.
„Ég er rosalega ánægð og stolt að vera búin að ákveða að skrifa undir áframhaldandi samning hjá Þór/KA enda eru mjög góðir hlutir að gerast hjá félaginu og framtíðin mjög björt,” segir Sandra María. „Það er mjög mikill efniviður fyrir norðan og það verður spennandi að sjá hvað liðið hefur fram að færa næsta sumar. Ég er mjög bjartsýn og hef mikla trú á okkur sem hóp og þessu teymi sem er í kringum félagið, sem er til fyrirmyndar. Núna er bara að nýta næstu mánuði að vinna í okkar veikleikum og styrkja okkar styrkleika enn meira og þá er allt opið í sumar. Ég gæti ekki verið meira spennt fyrir þessu.
Samheldnin og liðsheildin heilla Söndru Maríu sem segir það hafa heillað sig að vera áfram hluti af þessum frábæra hóp.
„Það sem heillaði mig og heillar mig alltaf rosalega mikið við Þór/KA er að þetta er eins og ein stór fjölskylda. Það eru allir tilbúnir að gera allt fyrir hvern annan og maður veit að það er alltaf staðið við bakið á manni og hjálpað í gegnum allar aðstæður sem geta komið upp. Það er mikið af fagfólki að vinna í kringum klúbbinn sem eru allir með sama markmið og sömu sýn, sem er eins góður og mögulega er hægt að ná. Ég er rosalega stolt að vera partur af þessum klúbb og með þessum stelpum sem ég veit að eiga eftir að gera mjög góða hluti á næstu árum.“
„Það er mikið fagnaðarefni fyrir okkur í Þór/KA að Sandra hafi ákveðið að vera hér áfram,“ segir Jóhann Kristinn Gunnarsson þjálfari. „Eðlilega er hún eftirsótt enda leikmaður sem býr yfir miklum hæfileikum og gæðum. Ein af þeim allra sterkustu í Bestu deildinni. Það er líka mikið hrós á félagið okkar að leikmaður af hennar kaliberi sjái hag sinn í því að æfa hér og spila og treysta okkur og okkar umhverfi fyrir því að þróa sinn leik áfram og festa sig enn frekar í sessi sem lykilleikmaður í A-landsliði Íslands. Sandra María er ekki bara lykilleikmaður í Þór/KA hún er einnig fyrirmynd fyrir yngri leikmenn og frábær vitnisburður um hvaða árangri hægt er að ná með dugnaði, fórnfýsi og sjálfsaga. Það er ekki nokkur spurning að þessi undirskrift er mikið gæfuspor og gott skref fram á við í starfinu okkar hér í Þór/KA.“
Sandra María hefur verið lykilmaður í liði Þórs/KA undanfarin tvö tímabil eftir að hún sneri heim frá Þýskalandi, og fyrirliði liðsins seinna árið. Hún hefur verið markahæst leikmanna félagsins bæði árin, skoraði átta mörk í 18 leikjum í Bestu deildinni 2022 og átta mörk í 19 leikjum á nýafstöðnu tímabili. Þá skoraði hún 12 mörk í sjö leikjum í A-deild Lengjubikarsins í upphafi árs og hefur einnig verið iðin við markaskorun í æfingaleikjum og undirbúningsmótum.
Hún gekk aftur í raðir Þórs/KA fyrir tímabilið 2022 eftir að hafa verið hjá þýska úrvalsdeildarfélaginu Bayer 04 Leverkusen frá ársbyrjun 2019. Áður hafði hún tvisvar spilað í nokkra mánuði á lánssamningi erlendis, hjá Slavia Prag 2016 og Leverkusen 2018.
Eftir dvölina hjá þýska félaginu tók við barnsburðarleyfi og að því loknu gekk hún í raðir Þórs/KA og kom fyrst við sögu í leik í Lengjubikarnum í byrjun mars 2022. Með mikilli vinnu og ástríðu náði hún fljótt fyrra formi og hefur verið gríðarlega mikilvægur hlekkur í ungu og öflugu liði Þórs/KA. Með frammistöðu sinni hefur hún einnig unnið sér fast sæti í A-landsliðinu á ný.
Sandra María á að baki 214 meistaraflokksleiki með Þór/KA í mótum á vegum KSÍ og Evrópukeppnum og skorað í þeim leikjum 119 mörk. Hún hefur leikið 38 A-landsleiki og skorað sex mörk, auk 25 leikja með yngri landsliðum Íslands. Hún hefur leikið 153 leiki í efstu deild á Íslandi og skorað 89 mörk, sem er félagsmet Þórs/KA í markaskorun í efstu deild.
Eftir því sem næst verður komist spilaði Sandra María samtals 48 leiki og skoraði þrjú mörk í efstu deildum Tékklands og Þýskalands. Samanlagt á hún því að baki 201 leik í efstu deildum þessara þriggja landa.