Rokk og ról! Sigur á Íslandsmeisturunum

Harpa var frábær í markinu gegn Val.
Harpa var frábær í markinu gegn Val.


Þór/KA lagði Val, 2-1, í annarri umferð Bestu deildarinnar í Boganum í gærkvöld. Sandra María jafnaði markamet, Tiffany með tvær stoðsendingar, Harpa lokaði markinu, Margrét innsiglaði sigurinn.

Góð stemning var í Boganum og fyrir það ber að þakka. Þáttur öflugra stuðningsmanna í að ná upp baráttu og krafti inni á vellinum verður seint ofmetinn.

Íslandsmeistararnir – sem einnig hefur verið spáð að vinni titilinn aftur á þessu ári – voru í heimsókn og mögulega bjuggust ekki mörg við því að Þór/KA myndi bíta frá sér, einnig eftir að hafa beðið 4-1 ósigur gegn Breiðabliki í fyrstu umferðinni. En hugarfar og barátta í bland við hæfileikaríkar fótboltastelpur getur skilað liðinu langt.

Sandra María jafnaði við Rakel Hönnu

Það voru ekki liðnar nema rúmar fimm mínútur af leiknum þegar Sandra María Jessen kom Þór/KA í 1-0. Tiffany McCarty stal þá boltanum af leikmanni Vals á miðjum þeirra vallarhelmingi, lék áfram og renndi boltanum til vinstri inn á teiginn til Söndru Maríu sem kláraði færið sitt af öryggi.

Þetta var 74. mark Söndru Maríu í efstu deild og hefur hún þar með jafnvað við Rakel Hönnudóttur yfir flest mörk skoruð fyrir Þór/KA í efstu deild.

Andrea Mist á slysó

Ekki löngu seinna þurfti Andrea Mist Pálsdóttir að fara af velli, en hún hlaut stóran skurð á höfði eftir að hún og Arna Sif skölluðu saman. Áfall fyrir liðið, óheppni fyrir Andreu Mist, en um leið tækifæri fyrir Kimberley Dóru Hjálmarsdóttur sem kom inn á og leysti hlutverkið mjög vel.

Andrea þurfti að heimsækja slysadeildina, fékk saumuð í sig fimm spor og var mætt aftur á bekkinn í seinni hálfleik.

Fleiri færi, fleiri skot - en færri mörk

Valur var meira með boltann, skapaði sér fleiri færi, átti fleiri skot og fleiri hornspyrnur en Þór/KA, en það hefur lítið að segja ef færin eru ekki nýtt. Þetta var þannig dagur hjá Val, bæði í fyrri og seinni hálfleik. Elín Metta Jensen náði að jafna leikinn á 64. mínútu, en hafði ekki löngu áður brennt af í dauðafæri. Mögulega bjuggust einhverjir áhorfendur við að þar með væri draumurinn úti og Valur myndi ganga á lagið og hirða öll stigin. En eftir markið var það sama uppi á teningnum, gestirnir sköpuðu sér færi, en náðu ekki að klára þau.

Baráttan og samheldnin skilaði sínu

Það verður hins vegar ekki tekið af Þór/KA stelpum að baráttan og samheldnin í liðinu var til fyrirmyndar og það skilaði árangri. Góð vörn með Hörpu Jóhannsdóttur frábæra fyrir aftan sig í markinu náði að koma í veg fyrir fleiri mörk frá gestunum.

Í ofanálag kom svo refsingin eins og blaut tuska í andlit gestanna þegar Tiffany átti sendingu inn fyrir vörn Vals. Sandra María virtist vera rangstæð og reyndi ekki við boltann, en Margrét Árnadóttir kom á ferðinni inn fyrir vörnina, átti skot sem Sandra í markinu verði, en Margrét gafst ekki upp, var first í boltann aftur og skoraði. Virkilega vel gert, bæði hjá Tiffany og Margréti.

Fyrsti leikur í efstu deild

Angela Mary Helgadóttir (2006) kom inn á sem varamaður fyrir Sögu Líf þegar um 12 mínútur voru eftir og var þetta hennar fyrsta innkoma í leik í efstu deild. Unnur Stefánsdóttir kom einnig inn á sem varamaður í leiknum, en hún spilaði sinn fyrsta leik í efstu deild í liðinni viku gegn Breiðabliki.

„Frábær sigur liðsheildarinnar“

Heimasíðan fékk þjálfarana til að tjá sig um þennan frábæra sigur að leik loknum. Jón Stefán Jónsson var ánægður með liðið sitt:

„Þetta var vissulega frábær sigur liðsheildarinnar, en ég held að það halli ekki á neinn þegar ég segi að Harpa Jóhannsdóttir hafi sótt þessi þrjú stig fyrir okkur. Þetta eru sætustu sigrarnir, þegar allir leggjast á eitt og gefa allt sitt,“ sagði Jónsi, og það eru orð að sönnu. Stelpurnar okkar skildu allt eftir á vellinum, eins og stundum er sagt.

En þjálfararnir eru áfram með fæturna á jörðinni og einbeita sér nú að næsta verkefni: „Nú er það Afturelding á sunnudag og það verður engu auðveldara en í dag. Við verðum tilbúin í þann leik,“ sagði Jón Stefán.

„Gæti ekki verið stoltari“

Kollegi Jónsa og hinn aðalþjálfari liðsins, Perry Mclachlan lýsti miklu stolti yfir liðinu í leikslok.

„Þetta var meiriháttar sigur á frábæru liði og ég gæti ekki verið stoltari af liðsframmistöðunni og þeirri miklu vinnu sem þær lögðu á sig í 90 mínútur. Þær eiga stigin skilið og allt hrós fyrir þá vinnu sem þær lögðu á sig til að komast yfir marklínuna!“ sagði Perry.

Í ljósi leiksins í dag er áhugavert að rifja upp orð Perrys í ræðu sem hann hélt á stuðningsmannakvöldi Þórs/KA á mánudagskvöldið. Þar sagðist hann meðal annars ekki sjá liðið spila þannig fótbolta að það myndi eiga fjölmargar sendingar innan liðsins áður en að því kæmi að það skoraði mark. „Þetta verður meira rokk og ról, mikil vinna og koma boltanum fram völlinn,“ sagði Perry.

Má segja að liðið hafi einmitt gert þetta í dag. Færin voru ekki mörg, en þau urðu til með baráttu, útsjónarsemi og áræðni. Valsliðið hafði boltann meira, en það dugði ekki til.

Leikurinn hjá Þór/KA var hins vegar í hnotskurn: Barátta, samheldni, færin nýtt og rokk og ról! Sigur í höfn. Þrjú stig í pokann.

Leikskýrslan á vef KSÍ.
Staðan, leikjadagskrá og úrslit leikja á vef KSÍ.

Uppskriftabók Hörpu og fleiri tilvitnanir

Hér eru tenglar á nokkrar fréttir vefmiðla af leiknum, með viðtölum við okkar fólk.

Hulda Björg Hannesdóttir fyrirliði ætlar að fara í uppskriftabókina hjá Hörpu til að sjá hvað hún borðaði fyrir leik - sjá frétt á mbl.is.

Jónsi hrósaði liðinu fyrir sigur liðsheildarinnar, en tók Hörpu Jóhannsdóttur markvörð út fyrir sviga og hrósaði henni sérstaklega - sjá frétt á visir.is.

Harpa var hógvær eins og hennar er von og sagði í viðtali við Stöð 2 og visir.is að þetta hafi verið liðsframmistaða frá A-Ö.
Sjá frétt á visir.is.

Viðtöl við Perry Mclachlan, Hörpu og Pétur Pétursson, þjálfara Vals - sjá á fotbolti.net.