Karfan er tóm.
Sandra María Jessen, Andrea Mist Pálsdóttir og Hulda Ósk Jónsdóttir semja við Þór/KA.
Nýja árið byrjar kröftuglega hjá okkur og þessa dagana nær blekið varla að þorna á einum samningi áður en skrifað er undir þann næsta.
Leikmannahópurinn er óðum að taka á sig mynd og öflugir leikmenn að bætast inn í hinar ýmsu stöður á vellinum. Andrea Mist Pálsdóttir (1998) og Sandra María Jessen (1995) eru á heimleið og munu spila með Þór/KA. Hulda Ósk Jónsdóttir (1997) verður áfram í okkar röðum.
Áður hafði félagið samið við Brooke Lampe (1999) bandarískan miðvörð sem kemur til okkar frá Mean Green, knattspyrnuliði University of North Texas, og Unni Stefánsdóttur (2004), virkilega efnilegan miðvallarleikmann sem kemur til okkar frá Grindavík. Þá hafa miðvallarleikmennirnir Saga Líf Sigurðardóttir (1999) og Agnes Birta Stefánsdóttir (1997) endurnýjað samninga sína við félagið, en báðar eru með umtalsverða reynslu, bæði hér heima og af knattspyrnuiðkun vestanhafs.
Það eru því engar ýkjur að spennan fari vaxandi innan okkar raða. Þór/KA hefur um árabil verið í fremstu röð hér á landi og þar viljum við vera. Félagið vann tvo Íslandsmeistaratitla á öðrum áratug aldarinnar og engin ástæða til að láta þar staðar numið. Markmiðin eru stór og metnaðarfull og hljóðið í þjálfurunum er gott.
Jón Stefán Jónsson, annar þjálfara meistaraflokks Þórs/KA segir það frábært fyrir kvennafótboltann á Akureyri að fá þær Söndru og Andreu aftur heim, reynslunni ríkari úr atvinnumennsku. „Það þarf varla að nefna hversu gríðarlegur liðsstyrkur þetta er fyrir okkar unga hóp. Það er ekki síður ánægjulegt að halda Huldu Ósk hjá félaginu enda er hún feykilega mikilvægur leikmaður. Ég vona að þetta sýni Akureyringum öllum að okkur hjá Þór/KA er fullkomlega alvara með að koma liðinu aftur í röð fremstu liða landsins,“ segir Jón Stefán.
Perry Mclachlan tekur í sama streng. „Það eru gríðarlega stór tíðindi fyrir klúbbinn að fá þessa leikmenn, Söndru Maríu og Andreu Mist, heim og að Hulda Ósk hafi framlengt veru sína hjá okkur. Þær munu hafa mikil áhrif og breyta miklu fyrir hópinn. Það er frábært að bæta reynslu þeirra við inn í hóp þeirra efnilegu ungu leikmanna sem við höfum. Þetta er fyrsta skrefið til baka í rétta átt fyrir okkur sem félag og við erum mjög spennt að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér,“ segir Perry.
Hér er til fróðleiks yfirlit um stöðuna eins og hún er núna, hvaða leikmenn hafa bæst í hópinn og hverjar hafa farið annað, hverjar hafa endurnýjað og svo listi yfir 20 leikmenn sem líklegt er að myndi leikmannahópinn á komandi tímabili. Auðvitað með fyrirvara um breytingar sem gætu orðið.
Komnar
Andrea Mist Pálsdóttir frá Växjö í Svíþjóð
Brooke Lampe frá háskólaliðinu Mean Green, University of North Texas í Bandaríkjunum
Sandra María Jessen frá Bayer 04 Leverkusen
Unnur Stefánsdóttir frá Grindavík
Farnar
Arna Sif Ásgrímsdóttir í Val
Berglind Baldursdóttir í Fylki
Colleen Kennedy í FH
Karen María Sigurgeirsdóttir í Breiðablik
María Catharina Ólafsdóttir Gros til Celtic (ág. 2021)
Miranda Smith til Frakklands (júlí 2021)
Sandra Nabweteme í FH (lán, júlí 2021)
Shaina Ashouri í FH
Endurnýjaðir samningar
Agnes Birta Stefánsdóttir
Hulda Ósk Jónsdóttir
Saga Líf Sigurðardóttir