Rangstöðumark og tap á Selfossi

Þjálfarar Þórs/KA, Perry Mclachlan og Jón Stefán Jónsson, ráða ráðum sínum í aðdraganda leiksins.
Þjálfarar Þórs/KA, Perry Mclachlan og Jón Stefán Jónsson, ráða ráðum sínum í aðdraganda leiksins.

Þór/KA mætti liði Selfoss fyrr í vikunni og mátti þola 2-0 tap. Rangstöðumark í upphafi leiksins hafði afgerandi áhrif.

Strax í upphafi skoruðu Selfyssingar mark sem aldrei hefði átt að standa vegna rangstöðu, mögulega tvöfaldrar rangstöðu. Við uppbyggingu sóknarinnar kom sending úr vörn út á hægri kant og þaðan beint inn á miðjuna, en leikmaðurinn sem tók við þeirri sendingu kom úr rangstöðu. Sóknin hefði því átt að vera stöðvuð þar, en það gerðist ekki. Sókninni lauk hins vegar með því sem virtist vera skot hægra megin úr teignum, en sóknarmaður Selfoss potaði boltanum yfir línuna - og virtist vera rangstæð. Markið fékk að standa.

Fyrri hálfleikurinn hefði mátt vera betri hjá okkar liði, en staðan þó aðeins 1-0 eftir fyrri hálfleikinn - markið sem átti ekki að standa.

Seinni hálfleikurinn var mun betri en sá fyrri, betri varnarleikur, aukinn sóknarþungi og færi og var Hulda Ósk til dæmis mjög nálægt því að jafna leikinn, en frábær markvarsla kom í veg fyrir það. Bæði lið fengu færi í seinni hálfleiknum, en lukkan var ekki með okkar stelpum í liði. Þess í stað bættu Selfyssingar við öðru marki. Lokatölur 2-0.

Krista Dís Kristinsdóttir kom inn sem varamaður seint í leiknum, en þetta var frumraun hennar á vellinum í Bestu deildinni, en hún átti að baki 12 leiki með Hömrunum og leik með Þór/KA í bikarkeppninni.

Að lokinni 13. umferðinni er Þór/KA enn í 8. sæti deildarinnar með 10 stig. Keflvíkingar voru einnig með 10 stig en unnu sinn leik í þessari umferð. 

Næsti leikur liðsins er heimaleikur gegn Þrótti, sem fram fer þriðjudaginn 23. ágúst kl. 18.

Gríðarlega mikilvægur lokakafli

Fram undan er gríðarlega mikilvægur lokakafli í deildinni, en Þór/KA á eftir að leika fimm leiki, þar af þrjá heimaleiki, eins og sjá má af þessu skjáskoti af ksi.is.

Nú ríður á að Akureyringar sameinist, mæti á völlinn og styðji stelpurnar okkar af þeim krafti sem við höfum sýnt í gegnum árin að býr í stuðningsfólki okkar. Við höfum áður fyllt stúkuna oftar en einu sinni, oftar en tvisvar þegar vel hefur gengið, en nú er kominn tími til að fylla hana og sýna hvað í okkur býr þegar á móti blæs - utan sem innan vallar.