Karfan er tóm.
Gengið hefur verið frá tvennum félagaskiptum hjá félaginu, ein lánuð og önnur komin heim úr láni.
Rakel Sjöfn Stefánsdóttir (2000) hefur verið lánuð til Tindastóls út tímabilið. Rakel hefur leikið 92 meistaraflokksleiki og skorað 20 mörk. Hún þekkir til á Króknum, en þar var hún einnig í láni hluta sumars 2020, spilaði þá tíu leiki og skoraði tvö mörk fyrir Tindastól. Rakel Sjöfn fær leikheimild með Tindastóli frá og með morgundeginum, 27. júlí. Rakel Sjöfn hefur komið við sögu í sex leikjum með Þór/KA í Bestu deildinni og tveimur í bikarkeppninni.
Amalía Árnadóttir (2006) var lánuð til Völsungs í vor ásamt tveimur öðrum leikmönnum frá Þór/KA, Sonju Björg Sigurðardóttur og Unu Móeiði Hlynsdóttur, Amalía skipti aftur til baka í Þór/KA fyrr í mánuðinum. Hún kom við sögu í fjórum leikjum með Völsungi í 2. deildinni og tveimur í bikarnum, þar sem hún skoraði eitt mark. Hún á að baki 22 leiki og tvö mörk í meistaraflokki með Hömrunum, Þór/KA og Völsungi. Amalía er enn gjaldgeng með 3. flokki og hefur nú þegar spilað einn leik með Þór/KA eftir að hún skipti aftur úr Völsungi.