Karfan er tóm.
Umfjöllun í Morgunblaðinu þann 1. ágúst 2012 fékk fólk fyrir norðan til að klóra sér í höfðinu. Við höldum áfram að rifja upp sumarið 2012 þegar í tilefni þess að í dag eru tíu ár frá því að Þór/KA fagnaði fyrsta Íslandsmeistaratitli sínum.
Mörg virtust eiga í erfiðleikum með að taka það inn og skilja að lið frá Akureyri gæti verið í toppbaráttu og mögulega unnið Íslandsmeistaratitil. Umfjöllun eftir 2-2 jafntefli Þórs/KA gegn Val á útivelli í Morgunblaðinu þann 1. ágúst 2012 er kannski lýsandi dæmi um þetta, en þar skrifaði Tómas Þór Þórðarson um Pepsi-deildina undir fyrirsögninni „Þór/KA: Toppliðið sem enginn skilur“.
Inntak greinarinnar er að Þór/KA hafi unnið leiki án þess að hafa verið betra liðið, hafi stolið stigi og það sé „ekki í fyrsta skipti sem seigla og barátta“ skili liðinu stigum, „…en þjálfarar í deildinni ásamt leikmönnum og stuðningsmönnum annarra liða hreinlega skilja ekki hvernig Þór/KA getur enn verið á toppnum.“
Þessi umræddi leikur er þó alls ekki fyrsti leikurinn í knattspyrnusögunni þar sem „betra“ liðið vinnur ekki eða liðið sem er meira með boltann tapar eða gerir jafntefli. Miðað við lýsinguna í þessari umfjöllun yfirspilaði Valur lið gestanna í 70 mínútur, komst í 2-0, meðal annars eftir að „fyrirliðinn sem stýrir vörninni skoraði sjálfsmark“ (sem er svo reyndar ekki rétt miðað við leikskýrsluna) og aðalmarkaskorari liðsins þetta sumarið var „týnd“ og „sást ekki“.
Vitnað er í Gunnar Rafn Borgþórsson, þjálfara Vals, sem „sagðist ekki skilja hvað væri í gangi, aðspurður af Morgunblaðinu eftir leik hvort seigla Þórs/KA væri dæmi um meistaraefni.“ Þá mun Þorlákur Már Árnason, þáverandi þjálfari kvennaliðs Stjörnunna og núverandi þjálfari karlaliðs Þórs, hafa „skotið“ á norðankonur og sagt það „engu máli skipta hvað Þórs/KA-liðið gerði, þær skoruðu alltaf. Meira að segja þegar þær ætluðu að gefa fyrir.“
Blaðamaður Morgunblaðsins – ásamt stuðningsmönnum og þjálfurum einhverra liða – virðast þannig hafa verið í áfalli yfir að lið gæti unnið knattspyrnuleik eða gert jafntefli þótt andstæðingurinn spilaði betri leik. Greinin þótti furðuleg á sínum tíma og átti mögulega þátt í því að þjappa stelpunum í Þór/KA saman fyrir átökin á lokasprettinum í deildinni. Þarna höfðu liðin spilað 12 umferðir af 18, þriðjungur af mótinu eftir og Þór/KA með þriggja stiga forystu á Stjörnuna.
Eftir þetta kom sigur gegn FH, Breiðabliki og Aftureldingu, síðan jafntefli gegn ÍBV þar sem tölfræðin sagði að ef Þór/KA hefði unnið og Stjarnan tapað stigum þá hefði titillinn verið tryggður í Eyjum. En svo var ekki og liðið fékk Selfoss í heimsókn í næstsíðustu umferðinni þar sem sigur nægði til að tryggja titilinn. Í þeim leik kom fyrsta markið eftir 29 mínútur og svo reglulega eftir það, samtals níu mörk, Katrín Ásbjörns og Sandra María báðar með þrennu í þeim leik. Lokaleikurinn var svo á útivelli gegn Fylki og þar kom einnig sigur. Sem sagt, fimm sigrar og eitt jafntefli eftir þennan leik gegn Val og einkunnina „Toppliðið sem enginn skilur.“
Þetta óskiljanlega endaði með 45 stig á toppnum, sjö stigum meira en ÍBV. Eini tapleikur liðsins kom einmitt á heimavelli gegn ÍBV, en í væntanlegum pistli frá þjálfaranum kemur fram að sá leikur hafi verið eini leikurinn sem liðið mætti illa til leiks.
Í nefndum pistli sem birtur verður hér á síðunni síðar í kvöld minnist Jóhann Kristinn Gunnarsson á þessa grein, en hann. Í viðtali við Skapta Hallgrímsson eftir að hafa unnið titilinn kom „neikvæð umræða" einnig við sögu, eins og sjá má af skjáskotinu hér að neðan - tekið af timarit.is. Skjáskot af umræddri fyrirsögn er þar fyrir neðan. Ef smellt er á myndirnar opnast þær á timarit.is.