Karfan er tóm.
Þór/KA tryggði sér nokkuð auðveldlega sæti í átta liða úrslitum Mjólkurbikarsins með stórsigri á Haukum í gær.
Óhætt er að segja að leikmenn og liðið allt hafi komið af krafti aftur upp á yfirborðið eftir að hafa verið sökkt á átakanlegan hátt í Eyjum fyrir nokkrum dögum. Liðið mætti af ákveðni og yfirvegun til leiks gegn Lengjudeildarliði Hauka í 16 liða úrslitum Mjólkurbikarins enda bara ein leið til að svara áföllum - það er inni á vellinum.
Fimm breytingar voru gerðar á byrjunarliði frá síðasta leik, sumar þeirra vegna meiðsla. Inn í byrjunarliðið komu Sara Mjöll, Hulda Ósk, Rakel Sjöfn, Iðunn Rán og Hulda Björg fyrir Hörpu, Huldu Karen, Örnu Eiríks, Sögu Líf og Vigdísi.
Aðeins voru liðnar um tíu mínútur af leiknum þegar Tiffany McCarty skoraði fyrsta markið. Andrea Mist Pálsdóttir og Margrét Árnadóttir bættu við tveimur mörkum fyrir leikhlé. Í seinni hálfleiknum komu svo mörk frá Söndru Maríu Jessen og Huldu Ósk Jónsdóttur, en sjötta markið var sjálfsmark leikmanns Hauka eftir fyrirgjöf frá Huldu Ósk.
Það var virkilega gaman að sjá liðið spila þennan leik af yfirvegun, ákveðni og festu. Það gladdi líka að sjá fimm leikmenn skora mörkin og að liðið hélt hreinu. Margir leikmenn sýndu góða frammistöðu, en í leikslok var það Andrea Mist Pálsdóttir sem var verðlaunuð sem okkar besta í leiknum og hlaut hún að launum gjafabréf frá Sprettinum.
Leikskýrslan á vef KSÍ.
Bikarkeppnin á vef KSÍ.
Myndaalbúm frá Þóri Tryggva.
Dregið á morgun
Með sigrinum hefur liðið tryggt sér sæti í átta liða úrslitum bikarkeppninnar. Dregið verður á morgun, en leikirnir fara fram 11. og 12. júní.
Ásamt Þór/KA verða Breiðablik, ÍBV, KR, Selfoss, Stjarnan, Valur og Þróttur í pottinum.