Karfan er tóm.
Þrjár úr leikmannahópi Þórs/KA eru þessa dagana í burtu í verkefnum með landsliðum Íslands, Sandra María Jessen með A-landsliðinu og þær Bríet Jóhannsdóttir og Sonja Björg Sigurðardóttir með U19 landsliðinu.
Í dag er leikdagur hjá A-landsliðinu sem tekur á móti norska landsliðinu á Þróttaravelli í Laugardal. A-landsliðið tekur á móti Sviss á þriðjudag og U19-landsliðið mætir því norska á laugardag og landsliði Slóveníu á þriðjudag. Nóg af leikjum fram undan. Leikir A-landsliðsins eru í beinni útsendingu í Sjónvarpinu, en leikir U19-landsliðsins á rás KSÍ í Sjónvarpi Símans.
Leikir A-landsliðsins eru í Þjóðadeild UEFA og er Ísland í 3. sæti í sínum riðli. Ísland tekur á móti Noregi og Sviss í þessum landsleikjaglugga, en síðan er útileikur gegn Noregi og heimaleikur gegn Frakklandi í lok maí og byrjun júní.
Bríet Jóhannsdóttir og Sonja Björg Sigurðardóttir eru staddar í Portúgal með U19 landsliðinu þar sem spilaður er riðill í 2. umferð undankeppni EM. Sigurlið riðilsins fer áfram í lokakeppnina í sumar. Íslenska liðið byrjaði ekki vel, tapaði 0-2 á móti Portúgal í fyrsta leik á miðvikudag. Sonja Björg kom inn á sem varamaður í seinni hálfleiknum, en Bríet kom ekki við sögu í leiknum.
Leikmenn úr yngri flokkum Þórs/KA hafa einnig verið í landsliðsverkefnum á undanförnum vikum. Þrjár voru valdar í æfingahóp U16-landsliðsins og þrjár í æfingahóp U15-landsliðsins, en báðir hóparnir komu saman til æfinga í marsmánuði.
Hafdís Nína Elmarsdóttir, Júlía Karen Magnúsdóttir og Karen Hulda Hrafnsdóttir æfðu með U16 landsliðshópnum 18. og 19. mars. Ásta Ninna Reynisdóttir, Haldóra Ósk Gunnlaugsdóttir Briem og Sigyn Elmarsdóttir æfðu með U15-landsliðshópnum sömu daga.
Í lok marsmánaðar fóru tvær ungar landsliðskonur úr Þór/KA, þær Bríet Fjóla Bjarnadóttir og Hafdís Nína Elmarsdóttir, til Malmö og tóku þátt í æfingum í akademíu félagsins.