Moli hefur orðið

Kaffærðir í blómum og gjöfum eftir farsælan feril með Þór/KA. Jói og Moli hættu eftir tímabilið 2016…
Kaffærðir í blómum og gjöfum eftir farsælan feril með Þór/KA. Jói og Moli hættu eftir tímabilið 2016. Mynd: Páll Jóhannesson/thorsport.is.

Siguróli Kristjánsson var aðstoðarþjálfari þriggja þjálfara Þórs/KA á árunum 2007-2016. Við gefum Mola orðið til að rifja upp sumarið 2012.

- - - 

Haustið 2011 voru tímamót hjá Þór/KA. Við réðum ungan dreng frá Húsavík sem þjálfara, Jóhann Kristin Gunnarsson. Nokkrum vikum síðar ákvað Rakel Hönnudóttir að ganga til liðs við Breiðablik eftir áralanga frábæra þjónustu fyrir Þór/KA, en við vorum búin að undirbúa okkur vel fyrir þessa tilkynningu og tilkynntum degi fyrir brottför Rakelar að við værum búin að semja við Þórhildi Ólafsdóttur, fyrirliða ÍBV, og Katrínu Ásbjörnsdóttur, efnilegasta leikmann KR. Flótlega um áramót vorum við svo búin að tryggja okkur þrjár stelpur frá Bandaríkjunum, þær Chantel Jones, Thanai Annis og Kaylu Grimsley, allt yfirburðaleikmenn í sinni stöðu. Við ákváðum líka að Arna Sif tæki við keflinu af Rakel sem fyrirliði og færðum hana af miðjusvæðinu í vörnina ásamt því að kynna til leiks stelpu úr 3. flokki, Aldísi Mörtu. Einnig færðum við aðrar tvær stelpur úr 3. flokki upp í meistaraflokk, Láru Einars og Söndru Maríu.

Sandra sló svo algerlega í gegn og skoraði 18 mörk. Þór/KA endaði mótið með því að vinna deildina með sjö stiga forskoti, algjörir yfirburðir, var langbesta liðið, hin liðin voru með góða einstaklinga. Öll vikan fram að leiknum við Selfoss (þar gátum við tekið titilinn ef við tækjum þrjú stig) fór í það að segja stelpunum að þetta væri bara leikur eins og allir hinir, ein orrusta af 18, taka af þeim stressið og halda þeim spenntum, ekki kvíðnum og ekki smug (grbb), halda spennustiginu eins nálægt „spenntar“ og við gátum.

Þessi vika verður lengi í okkar minni. Spennan byrjaði að magnast upp og stelpurnar fundu fyrir mikilli hvatningu frá fólkinu í bænum. Á leikdegi var enginn í vafa að við værum að fara alla leið, vinna leikinn og taka dolluna á heimavelli, en til þess þyrftum við á toppleik að halda, stelpurnar vissu það. Löngu fyrir leik var stúkan orðin kjaftfull og hvatning inn á völlinn hófst löngu fyrir upphaf leiksins. Taugarnar voru gjörsamlega þandar, mikið í húfi en stelpurnar minntar á að þetta er bara leikur, „play your best“.

Eftir markalausar fyrstu 30 mínútur sprakk blaðran hjá Selfossi og við settum níu mörk á þær og titillinn okkar með 1.200 áhorfendur uppi í stúku. Þetta var frábær hópur með flotta blöndu af kornungum stelpum sem fengu hlutverk á stóra sviðinu, Lillý Hlynsdóttir kom inn í hópinn og skipti verulegu máli, var hún 14 ára eða 15, man það ekki. Sandra og Lára á 17. ári og Aldís á 19. ári og fyrirliðinn Arna á 20. ári. Í júlíglugganum fengum við Rebeccu Johnson frá Svíþjóð til að styrkja hópinn og var það lokapúslið inn í hópinn.

Í dag er alltaf gaman að rifja upp þetta sumar, allir álitsgjafar töldu okkur vera 5.-7. besta lið landsins og það var ekki fyrr en við vinnum Breiðablik í Kópavoginum og náðum jafntefli í Eyjum að þessir álitsgjafar játuðu sig sigraða. Á endanum unnum við með sjö stigum (yfirburðir) og skoruðum held ég flest mörk og fengum fæst mörk á okkur, við komumst líka í undanúrslit bikarsins!!!

---

Þar sem minni Mola er gloppótt á köflum skal hér hafa það sem sannara reynist. ÍBV skoraði flest mörk í deildinni þetta sumar, 58, en Þór/KA og Stjarnan skoruðu bæði 53 mörk. Það er hins vegar rétt að Þór/KA fékk á sig fæst mörk allra liða í deildinni, 16.

Og til fróðleiks, í undanúrslitum bikarkeppninnar mætti liðið Stjörnunni og beið 2-1 ósigur í framlengdum leik.