Mjólkurbikarinn: Undanúrslitaleikur á VÍS-vellinum í kvöld

Þór/KA tekur á móti Breiðabliki á VÍS-vellinum (Þórsvelli) í kvöld kl. 19:45 í undanúrslitum Mjólkurbikarsins.

Mögulega er leikur dagsins mikilvægasti heimaleikur liðsins á þessu tímabili því sigurliðið fer í úrslitaleik Mjólkurbikarkeppninnar - og leikið til þrautar ef þörf er á. Það er því enn og aftur ástæða til að hvetja Akureyringa til að mæta á völlinn og styðja stelpurnar okkar, hvort sem fólk mætir í svörtu í stíl við Þór/KA eða í litum félaganna sem standa að þessu sigursælasta knattspyrnuliði bæjarins. Miðasala er í Stubbi-appinu og við hliðið á vellinum. Athugið að ársmiðar á leiki Þórs/KA gilda EKKI á bikarleiki. 

Það verður ekki aðeins boðið upp á fyrirtaks fótboltaskemmtun á vellinum heldur ýmislegt í boði fyrir leik, í leikhléi og eftir leik í samstarfi stjórnar Þórs/KA og stuðningshóps í kringum liðið. Upphitunin hefst í Hamri um kl. 18:30. DJ Lilja lífgar upp á stemninguna, andlitsmálning og ís í boði. Happdrættismiði fyrir öll sem mæta, flottir vinningar dregnir út í leikhléi. Kvennakvöldsnefndin afhendir styrki og eftir leik býðst stuðningsfólki að fá myndir með leikmönnum Þórs/KA áritaðar.

Félögin hafa mæst fjórum sinnum í bikarkeppninni í gegnum árin, eins og sjá má á skjáskotinu hér að neðan. Breiðablik vann fyrstu þrjár viðureignirnar, 2008, 2009 og úrslitaleikinn 2013, en Þór/KA vann 3-1 sigur á Kópavogsvelli 2017. Smellið á myndina til að skoða leikjalistann á vef KSÍ þar sem hægt er að fletta upp á leikskýrslu hvers leiks fyrir sig. 

Af þeim sem voru í leikmannahópnum í leiknum 2017 eru fimm hjá félaginu í dag. Sandra María Jessen, Hulda Ósk Jónsdóttir og Hulda Björg Hannesdóttir voru í byrjunarliðinu, en Margrét Árnadóttir og Agnes Birta Stefánsdóttir voru varamenn og komu báðar við sögu í leiknum. Sandra María er hins vegar sú eina í leikmannahópnum í dag sem spilaði úrslitaleikinn 2013, en Jóhann Kristinn Gunnarsson var þjálfari liðsins þá eins og nú. Jóhann fór þrisvar með liðið í undanúrslit eða lengra á þeim fimm tímabilum sem hann stýrði liðinu á árunum 2012-2016 og svo núna á öðru tímabilinu með liðið.

Áttunda skiptið í undanúrslitum

Einhvers staðar í umræðum eftir 16 eða átta liða úrslitin heyrðist því fleygt að tími væri kominn til að Þór/KA næði langt í bikarnum því það væri orðið ansi langt síðan síðast. Það er kannski ekki alls kostar rétt, en að vísu hefur Þór/KA aðeins einu sinni náð alla leið í úrslitaleikinn. Síðustu þrjú ár hafa ekki verið gjöful, en tvö ár í röð komst liðið í undanúrslit og má reyndar orða það þannig að Þór/KA hefur ekki enn verið slegið út úr bikarkeppninni 2020, ekki frekar en hin þrjú liðin sem náðu þangað. Sú keppni var nefnilega slegin af vegna heimsfaraldursins og var aldrei kláruð. 

Leikurinn í kvöld er sjöundi undanúrslitaleikur liðsins í bikarkeppninni, en áttunda skiptið sem liðið nær í undanúrslit þar sem undanúrslitaleikirnir 2020 voru aldrei spilaðir Listinn hér að neðan sýnir ár frá ári, frá því að fyrst var leikið undir merkjum Þórs/KA, hve langt liðið náði í bikarkeppninni og hvaða lið það var sem sló Þór/KA út hverju sinni.

2024 - ???
2023 - 16 liða (Keflavík)
2022 - 8 liða (Selfoss)
2021 - 16 liða (FH)
2020 - Áttum að mæta KR í undanúrslitum, mótið blásið af.
2019 - Undanúrslit (KR)
2018 - 16 liða (Stjarnan)
2017 - 8 liða (Stjarnan)
2016 - Undanúrslit (ÍBV)
2015 - 8 liða (Stjarnan)
2014 - 16 liða (Fylkir)
2013 - Úrslit (Breiðablik)
2012 - Undanúrslit (Stjarnan)
2011 - 16 liða (Fylkir)
2010 - Undanúrslit (Valur)
2009 - 8 liða (Breiðablik)
2008 - 8 liða (Breiðablik)
2007 - 8 liða (KR)
2006 - 16 liða (Keflavík)
2005 - 1. umferð (Fylkir)
2004 - 8 liða (KR)
2003 - 8 liða (Valur)
2002 - Undanúrslit (KR)
2001 - Ekki með
2000 - 8 liða (ÍBV)
1999 - 8 liða (Grindavík)