Karfan er tóm.
Sumarið flýgur áfram (eða kemur fljúgandi eftir veturinn í liðinni viku) og verkefnin eru næg. Strax á morgun er komið að næsta leik, átta liða úrslit í Mjólkurbikarkeppninni og við erum á leið í Hafnarfjörðinn.
Liðin í Bestu deildinni koma inn í bikarkeppnina í 16 liða úrslitum og bæði lið því búin að spila einn leik í keppninni til þessa. FH vann FHL 3-2 í 16 liða úrslitunum og Þór/KA vann 2-1 sigur á Tindastóli á Dalvíkurvelli.
Þór/KA og FH hafa mæst þrisvar í bikarkeppninni eins og sjá má á myndinni hér að neðan. Allar viðureignirnar hingað til hafa farið fram á Kaplakrikavelli, eins og leikurinn á morgun. Þór/KA vann 5-1 útisigur í átta liða úrslitum 2010 en féll út í undanúrslitum og 5-0 útisigur í 16 liða úrslitum 2013 og fór þá alla leið í úrslitaleikinn. Þriðja viðureign liðanna í bikarkeppninni endaði með 1-1 jafntefli eftir framlengdan leik í júní 2021, en FH hafði betur í vítaspyrnukeppni.
Leikurinn á morgun verður því fjórða viðureign þessara liða á Kaplakrikavelli í bikarkeppni KSÍ.