Mjólkurbikarinn: Sigur á FH og undanúrslit fram undan

Þór/KA vann 1-0 útisigur á FH í átta liða úrslitum Mjólkurbikarkeppninnar fyrr í dag. Dregið var um leiki undanúrslitanna strax að loknum leikjum kvöldsins. Þór/KA fær heimaleik gegn Breiðabliki 29. eða 30. júní. 

Markalaust var eftir fyrri hálfleikinn, en á 3. mínútu seinni hálfleiks skoraði Sandra María Jessen eina mark leiksins eftir að hafa komið inn á sem varamaður í byrjun seinni hálfleiks. Hún hafði verið inni á vellinum í tvær mínútur og átta sekúndur þegar hún skoraði eftir laglegan undirbúning þar sem Lara Ivanuša og Hulda Ósk Jónsdóttir léku á milli sín inni á teignum, Hulda Ósk kom boltanum inn á Söndru Maríu sem skoraði af stuttu færi. 

FH fékk víti þegar um stundarfjórðungur var liðinn af seinni hálfleiknum, en Shelby Money bjargaði deginum og varði vítið. Mark Söndru Maríu réði því úrslitum, 1-0 sigur og Þór/KA áfram í undanúrslit Mjólkurbikarkeppninnar.

FH - Þór/KA 0-1 (0-0)

Eftir leiki átta liða úrsiltanna var dregið fyrir leikina í undanúrslitum í beinni útsendingu í Sjónvarpinu. Þór/KA fær heimaleik gegn Breiðabliki og Valur heimaleik gegn Þrótti. 


Skjáskot af spilaranum á ruv.is.

Molar og fróðleikur

  • 1 - Hildur Anna Birgisdóttir spilaði sinn fyrsta bikarleik þegar hún kom inn á í stað Emelíu Óskar Krüger á 68. mínútu.
  • 4 - Þór/KA hefur mætt FH fjórum sinnum í bikarkeppninni, alltaf í Kaplakrika. Þrisvar hefur Þór/KA haft betur, en FH fór áfram eftir vítaspyrnukeppni 2021.
  • 5 - Fimm leikmenn hafa spilað allan leikinn í báðum bikarleikjunum til þessa. Það eru Agnes Birta Stefánsdóttir, Bryndís Eiríksdóttir, Hulda Björg Hannesdóttir, Margrét Árnadóttir og Shelby Money.
  • 8 - Þar til nú hafði Þór/KA komist sjö sinnum í undanúrslit eða lengra í bikarkeppninni frá því að félagið tók fyrst þátt í keppninni undir merkjum Þórs/KA árið 1999 og er því á leið í undanúrslit í áttunda skipti. 
  • 10 - Hildur Anna spilaði sinn 10. meistaraflokksleik.
  • 25 - Mjólkurbikarkeppnin í ár er 25. bikarkeppnin sem Þór/KA tekur þátt í. Fyrsta skiptið var 1999, en félagið tók ekki þátt í bikarkeppninni árið 2000. 
  • 54 - er fjöldi klukkutímanna sem leið frá því að leik liðsins gegn Breiðabliki lauk á laugardaginn þar til liðið lagði af stað frá Akureyri í þennan leik gegn FH.
  • 128 - er fjöldi sekúndna frá því að Sandra María Jessen kom inn á sem varamaður í upphafi seinni hálfleiks þar til hún hafði skorað eina mark leiksins.
  • 780 - er vegalengdin í kílómetrum sem liðið ók í dag, Akureyri-Hafnarfjörður-Akureyri.
  • 10/10 - er einkunnin sem uppátækið með gleraugun í viðtalinu á RÚV fær. Jói og Peddi fá einkunnina saman, Peddi á gleraugun (og sennilega hugmyndina) og Jói framkvæmdi hana.

    Skjáskot úr spilaranum á ruv.is.