Karfan er tóm.
Þór/KA mætir liði Tindastóls í 16 liða úrslitum Mjólkurbikarkeppninnar í dag. Leikurinn fer fram á Dalvíkurvelli og hefst kl. 12 á hádegi.
Ástæður þessa leikstaðar og leiktíma eru þær að Sauðárkróksvöllur er sem stendur ónothæfur fyrir meistaraflokksleiki vegna skemmda sem urðu á undirlagi í leysingum í lok apríl. Grasvellir á Norðurlandi vestra eru ekki orðnir leikhæfir og því þurftu Skagfirðingar að leita yfir í Eyjafjörðinn og fá Dalvíkurvöll lánaðan. Svo óheppilega vill til að meistaraflokkur karla hjá Dalvík á einnig leik á vellinum í dag. Dalvíkur færði sinn leik til 16:30 og leikur Tindastóls og Þórs/KA getur því byrjað kl. 12.
Þetta er auðvitað kjörið tækifæri fyrir stuðningsliðið okkar sem hefur mætt og staðið vel við bakið á okkur í Boganum í vetur og vor að skreppa í stuttan laugardagsbíltúr til Dalvíkur og styðja stelpurnar.
Það sem er auðvitað einnig óvenjulegt við leikinn er að útiliðið á fyrir höndum styttra ferðalag en heimaliðið því leikurinn er heimaleikur Tindastóls. Bæði liðin féllu úr bikarkeppninni í 16 liða úrslitum í fyrra. Tindastóll tapaði þá fyrir Selfyssinguj, 0-1, á Sauðárkrkóki, en ÞórKA tapaði 2-0 fyrir Keflavík í Keflavík.
Aðeins einu sinni áður
Þór/KA og Tindastóll hafa einu sinni áður mæst í bikarkeppninni. Það var í maí 2007. Þór/KA vann þá 8-1 sigur á Sauðárkróksvelli. Það er reyndar áhugavert að rýna í þá leikskýrslu. Vanda Sigurgeirsdóttir, fyrrverandi formaður KSÍ, var þá við stjórnvölinn hjá Skagafjarðarliðinu. Hera Birgisdóttir kom inn á þegar um stundarfjórðungur var eftir af leiknum, en fyrir þau sem ekki vita þá stjórnar maðurinn hennar, Halldór Jón Sigurðsson, liði Tindastóls í dag. Rakel Hönnudóttir skoraði sex af átta mörkum Þórs/KA í leiknum.