Mjólkurbikarinn: Áfram í átta liða úrslit

Veðrið var ekki eins gott á Dalvík í dag og á Sauðárkróki þegar Þór/KA sótti Tindastól heim í Bestu …
Veðrið var ekki eins gott á Dalvík í dag og á Sauðárkróki þegar Þór/KA sótti Tindastól heim í Bestu deildinni í fyrra. Hér er Karen María Sigurgeirsdóttir í baráttu við leikmenn Tindastóls. Karen María skoraði fyrra Mark Þórs/KA í dag og átti þátt í aðdraganda annars marksins. Mynd: Egill Bjarni Friðjónsson.
- - -

Sigur á liði Tindastóls, Þór/KA komið áfram í átta liða úrslit Mjólkurbikarsins, Sandra María skoraði ekki í leik dagsins, en lagði upp bæði mörkin í 2-1 sigri.

Það voru kuldalegar aðstæður á Dalvíkurvelli í hádeginu þegar leikur hófst. Þór/KA undan vindi í fyrri hálfleik og sótti án afláts, en Tindastóll náði forystunni. Stundarfjórðungi síðar voru komin tvö mörk frá Þór/KA og það dugði, 2-1 sigur og Þór/KA komið í átta liða úrslit bikarkeppninnar. Dregið verður í átta liða úrslitin þriðjudaginn 21. maí.

Tindastóll - Þór/KA 1-2 (1-2)

Molar og fróðleikur

  • 1 - Fyrsti bikarleikur Bríetar og Bríetar. Leikurinn í dag var fyrsti leikur Bríetar Jóhannsdóttur og Bríetar Fjólu Bjarnadóttur í bikarkeppni í meistaraflokki. Bríet Fjóla kom inn á þegar tvær mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma og Bríet Jóhannsdóttir á annarri mínútu viðbótartímans.
  • - Leikurinn í dag var sá fyrsti á árinu 2024 sem Sandra María Jessen skorar ekki í, eins og bróðir hennar, Jan Eric Jessen, benti á í stuttum pistli á Facebook síðdegis. Að meðtöldum leik með Þór/KA2 í Kjarnafæðimótinu hefur Sandra María skorað 24 mörk og átt níu stoðsendingar í 17 leikjum. Tvær stoðsendingar litu dagsins ljós í leik dagsins þegar hún lagði upp mörkin fyrir Karen Maríu og Huldu Ósk.
  • 10 Karen María Sigurgeirsdóttir spilaði í dag sinn tíunda bikarleik.
  • 20 - Sandra María Jessen spilaði í dag sinn 20. bikarleik.
  • 40 - Sonja Björg Sigurðardóttir kom inn á sem varamaður undir lok leiksins og er þar með komin í 40 leiki í meistaraflokki, fæsta þeirra reyndar með Þór/KA því hún á að baki 11 leiki með Hömrunum 2021 og 20 með Völsungi 2022 á lánssamningi frá Þór/KA. 
  • 80 - Veðrið á Dalvík í dag bauð ekki beinlínis upp á að fólk fjölmennti á völlinn. Í leikskýrsluna voru skráðir 80 áhorfendur á leiknum. Mögulega eru gæslumenn og starfsmenn inni í þeirri tölu. Fjöldinn segir þó ekki allt því okkar allra harðasta fólk var mætt, vel klætt og kættist með okkur yfir sigrinum. Okkar fólk lætur alltaf eitthvað í sér heyra og það skiptir máli.
  • 90 - Agnes Birta Stefánsdóttir spilaði í dag sinn 90. leik í meistaraflokki í mótum á vegum KSÍ. Leikirnir eru þó ekki allir með Þór/KA því hún spilaði 12 leiki með Hömrunum 2018 og tíu leiki með Tindastóli 2020, í bæði skiptin á lánssamningi frá Þór/KA.
  • 101 - er munurinn á þeirri vegalengd sem Tindastólsliðið þurfti að aka og vegalengdinni sem leikmenn Þórs/KA óku frá Hamri að Dalvíkurvelli. Heimaliðið átti lengri leið á leikstað en gestaliðið.